
Kvikmyndahúsið Bíó Paradís hefur ákveðið að bjóða upp á sýningu næstkomandi fimmtudag á Heavier Trip en myndin er framhald af Heavy Trip, sem kom út árið 2018.
Myndin fjallar um finnsku dauðametalsveitina Impaled Rektum sem sleppur úr norsku fangelsi og lendir í ólgusjó af brjálæðislegum ævintýrum. Fyrri myndin var einmitt sýnd í Bíó Paradís á sínum tíma og var fullt hús þá.
Sýningin er samstarfsverkefni Stokkið í eldinn og Bíó Paradís en Stokkið í eldinn er hlaðvarpsþáttur um þungarokk sem Birkir Fjalar Viðarsson og Smári Tarfur Jósepsson stýra.
„Ég er ofboðslega spenntur að sjá framhald einnar af fyndnustu norrænu gamanmynda allra tíma. Ég er samt eiginlega spenntari fyrir því að sjá allt fallega fólkið sem mun mæta. Það er einhvern veginn fátt heiðarlegra, meira ekta og heilnæmt en að fá sér drykk með fólki sem brennur fyrir tónlist og frumlegum kvikmyndum. Bíó Paradís er líka svalasta og nettasta bíóhús veraldar. Þar iðar allt af lífi,“ sagði Birkir í samtali við Mannlíf.
Hann tekur fram að myndirnar séu ekki aðeins gerðar fyrir rokkhlustendur. Samkvæmt honum var Heavy Trip var einfaldlega skemmtileg vegamynd um vináttu, fordóma, ævintýri og seiglu mannsandans og hann á ekki von á öðru með Heavier Trip.
„Konan mín þolir ekki þungarokk en Heavy Trip fékk fullt hús stiga hjá henni enda grenjaði hún ekki síður úr hlátri en restin af salnum.“
Komment