
Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir hvetur Grænlendinga eindregið til að lýsa yfir sjálfstæði sínu í nýrri Facebook-færslu þar sem hún gagnrýnir harðlega nýlendustefnu Dana og lýsir áhyggjum af framtíð Grænlands.
„Ég óska öllum Grænlendingum blessunar í baráttu þeirra fyrir sjálfstæði,“ skrifar Björk og bendir á að Íslendingar hafi upplifað mikinn létti þegar þeir slitu tengslum við Danmörku árið 1944.
„Íslendingum er gríðarlega létt yfir því að þeim tókst að losna undan Dönum árið 1944,“ skrifar hún og bætir við að sjálfstæðið hafi skipt sköpum fyrir íslenska tungu.
„Við misstum ekki tungumálið okkar (börnin mín væru að tala dönsku í dag).“
Björk segist finna fyrir djúpri samúð með Grænlendingum og nefnir sérstaklega mál sem vakti alþjóðlega athygli, þar sem lykkjum var komið fyrir í legi stúlkna án vitneskju þeirra áratugum saman.
„Ég fyllist sífellt samúðar með Grænlendingum, sérstaklega þegar málið kom upp um þvingaðar getnaðarvarnir, þar sem 4.500 stúlkur, sumar aðeins 12 ára, fengu lykkju setta í sig án vitundar sinnar á árunum 1966 til 1970.“
Hún bendir á að afleiðingarnar séu enn sýnilegar í dag.
„Þær eru á mínum aldri eða yngri … barnlausar …“
Í færslunni gagnrýnir Björk jafnframt harðlega að meðferð Dana á Grænlendingum hafi ekki batnað með tímanum og segir þá enn litið á þá sem annars flokks fólk.
„Og enn í dag eru Danir að koma fram við Grænlendinga eins og annars flokks fólk, með því að taka börn frá foreldrum sínum árið 2025!“
Björk segir nýlendustefnu hafa ítrekað vakið hjá sér hryllingstilfinningu og lýsir miklum ótta við að Grænlendingar kunni að skipta um kúgara í stað þess að öðlast raunverulegt sjálfstæði.
„Nýlendustefna hefur ítrekað sent kuldahroll niður bakið á mér, og sú hugmynd að Grænlendingar gætu farið frá einum grimmum nýlenduherra til annars er of hrottaleg til að hægt sé að ímynda sér.“
Hún vísar þar til íslensks orðtaks og útskýrir það jafnframt:
„Úr öskunni í eldinn,“ eins og við segjum á íslensku.“
Í lok færslunnar hvetur Björk Grænlendinga skýrt og afdráttarlaust til að taka örlög sín í eigin hendur.
„Kæru Grænlendingar, lýsið yfir sjálfstæði!!!! Samúðarkveðjur frá nágrönnum ykkar. Hlýja. Björk.“

Komment