
Björn Leví Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata segir Sigmund Davíð Gunnlaugsson stunda hræðsluáróður í nýrri Facebook-færslu.
Björn Leví birti í gærkvöldi skjáskot úr frétt um ræðu Sigmundar Davíðs, formanns Miðflokksins, sem hann hélt á landsþingi flokksins sem stendur yfir um helgina. Þar talaði formaðurinn um óheft flæði hælisleitenda til Íslands og gegn inngöngu í Evrópusambandið. Björn Leví kallar málflutning Sigmundar Davíðs „hræðsluáróður“. Segir hann mikilvægt að ræða „afleiðingar þess að blekkja fólk“ og segir að hægt sé að horfa til Bandaríkjanna í þeim efnum.
„Svona lítur hræðsluáróður út.
Enginn, aldrei - sem hefur eitthvað gáfulegt um mál að segja - hefur haft óheft flæði hælisleitenda sem stefnu eða markmið.
Það er því gagnslaust að ræða málin út frá þessum strámanni. Af því að ef þetta er raunverulega eitthvað sem formaður Miðflokksins heldur að sé raunverulegt, þá værum við að ræða um veruleikafirringu.
Ef hann heldur ekki að þetta (óheft flæði) sé alvöru vandamál heldur er bara að ýkja - þá verðum við að ræða afleiðingar þess að blekkja fólk.
Hér má horfa til BNA - og afleiðingar blekkinga þeirra sem ráða.“
Þess má geta að samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum hefur umsóknum hælisleitenda til Evrópu fækkað um 23 prósent á fyrsta helmingi ársins 2025. Þá hafði umsóknum hælileitenda á Íslandi fækkað um helming í september í fyrra, samkvæmt frétt RÚV en undanfarin ár hafa hælisleitendur að langmestu komið frá hinni stríðshrjáðu Úkraínu og Venesúela.
Komment