
Björn Leví Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, vekur athygli á miklum mun á fjölda greiddra atkvæða í Eurovision milli landa, og veltir fyrir sér hvort mögulegt sé að hagræða niðurstöðum keppninnar með atkvæðakaupum.
Í ítarlegri færslu á Facebook setur hann fram tölulegan samanburð sem ýtir undir áleitnar spurningar um gagnsæi og jafnræði í keppninni. Við færsluna birtir hann skjáskot af frétt spænska El País þar sem segir að spænska ríkisútvarpið ætli sér að krefjast þess að sjá tölugögn frá símakosningunni í Eurovision þar í landi. RÚV fjallaði um málið í morgun.
Björn Leví bendir á að samkvæmt opinberum tölum hafi spænska ríkissjónvarpið RTVE fengið alls 142.688 atkvæði í úrslitunum, þar af 7.283 símtöl, 23.840 SMS og 111.565 netatkvæði. Til samanburðar voru greidd aðeins um 14.000 atkvæði frá Spáni í fyrri undanriðli keppninnar, þegar Ísrael tók ekki þátt.
Björn Leví ber þessar tölur saman við Söngvakeppni RÚV á Íslandi, þar sem greidd voru rúmlega 28.000 atkvæði í undankeppni og 198.330 atkvæði í úrslitum. Þar sigraði Hera Björk með 100.835 atkvæðum, á meðan Bashar Murad, palestínski listamaðurinn sem keppti undir íslenskum fána, hlaut 97.495 atkvæði í einvíginu.
Í færslunni bendir Björn Leví á að það þurfi ekki háar fjárhæðir til að hafa áhrif á niðurstöður. Ef þriðjungur spænsku atkvæðanna hafi verið keyptur – um 30.000 atkvæði – gæti það hafa kostað um 4,4 milljónir króna, samkvæmt Birni Leví.
„Segjum að það hafi verið keypt atkvæði fyrir 5 milljónir bara á Spáni.“
Ef slíkt mynstur endurtæki sig í fleiri löndum – og Ísrael fékk 12 stig frá tólf löndum og 10 stig frá sex öðrum, segir Björn, væri kostnaðurinn við umfangsmikil atkvæðakaup vel innan seilingar. Björn bendir á að Ísraelsríki hafi „aðeins meira fjármagn en BBC“, sem borgar rúmlega 50 milljónir króna árlega til að tryggja Bretlandi fast sæti í keppninni.
Hann fullyrðir ekki að svindl hafi átt sér stað en telur eðlilegt að skoða tölurnar nánar. Ísrael hlaut hæstu stig frá meðal annars Spáni, Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi, löndum með stóran áhorfendahóp og hátt vægi í atkvæðagreiðslu.
Björn bendir á að Ísrael gæti vel haft aðgang að nákvæmum tölum um atkvæðamynstur og beint atkvæðakaupum þangað sem þau skila mestum árangri:
„Já, þetta hljómar eins og samsæriskenning en þetta er bara tilraun til þess að skoða hversu mikið þyrfti til – ef það ætti að kaupa atkvæði.“
Að lokum leggur hann til að allar tölur um atkvæðafjölda frá hverju landi verði gerðar opinberar, ekki aðeins hlutfallsleg stig, svo hægt sé að skoða hugsanleg frávik og auka gagnsæi í keppninni.
Komment