Það var gjörsamlega stappað þegar hljómsveitin BKPM hélt útgáfutónleika á 12 Tónum og stemningin og spilamennskan minnti einna helst á Cavern klúbbinn fræga þegar Bítlarnir létu veggina svitna
Hljómsveitin BKPM er ein sú heitasta á Íslandi í dag. Mögulega sú heitasta.
Hljómsveit sem lofar og stendur við.

BKPM var að senda frá sér plötuna Bíddu Ha? og hélt af því tilefni útgáfutónleika á 12 Tónum.
Það var raftónlistardúóið Chum n' Bass sem hitaði upp fyrir BKPM og gerði það vel eins og við var að búast.

Neðri hæðin á 12 Tónum fylltist hægt og rólega á meðan upphitunarhljómsveitin Chum n' Bass lét ljós sitt skína.

Þegar BKPM byrjaði að stilla sér upp á sviðinu og koma sér og græjunum sínum vel fyrir var neðri hæðin alveg gjörsamlega troðfull - útúrstöppuð - og þungt loftið fylltist mikilli og hreinlega rafmagnaðri spennu.

Miðað við stemninguna og húsfyllinn leikur enginn vafi á því að hljómsveitin BKPM á ansi stóran, dyggan og flottan hóp aðdáenda, sem hvöttu bandið óspart áfram og nutu hverrar nótu í botn; slík var stemningin.

Það lak hreinlega sviti af veggjunum sem endurspeglar vel orkuna sem er að finna í hljómsveitinni BKPM og tónleikagestir nutu stemningarinnar sem þeir sköpuðu sjálfir í samvinnu við hljómsveitina sem er án efa ein sú allra þéttasta á Íslandi í dag.

Sé tekið mið af þessum tónleikum og plötunni nýútgefnu er einfaldlega ljóst að hér er um að ræða eina mest spennandi hljómsveit sem hefur komið fram á sjónarsviðið í langan tíma. Eða eins og einn tónleikagestur sagði við blaðamann og ljósmyndara Mannlífs: „BKPM er bara sveittasta og heitasta hljómsveitin á landinu.“

Munið nafnið - BKPM - ef þið viljið alvöru sveitta tónleika og ekkert kjaftæði!






Þeir sem vilja vita meira um hljómsveitina BKPM geta svalað fróðleiksfýsn sinni nákvæmlega hér.



Myndirnar tók Víkingur Óli Magnússon.
Komment