
Björn Þorláksson, fjölmiðlamaður á Samstöðinni og fyrrverandi starfsmaður bæði RÚV og Stöðvar 2, gagnrýnir harðlega ráðningarferli Ríkisútvarpsins og stöðu reyndra blaðamanna á Íslandi í langri færslu sem hann birti á Facebook.
Í færslunni segir Björn að verið sé að „kreista lífið úr síðustu reyndu blaðamönnunum“ og að þeir sem hafi sýnt sjálfstæði og sinnt blaðamennsku út frá „varðhundshlutverkinu“ séu margir hraknir út á jaðarinn. Hann segist vilja segja sína sögu í ljósi þess að fleiri reyndir blaðamenn, þar á meðal „Kolla vinkona mín“, hafi nýverið misst vinnuna en þar vísar hann í uppsagnir á Morgunblaðinu en Kolbrún Bergþórsdóttir var ein af þeim sem þurfti að taka poka sinn og yfirgefa Hádegismóa.
Sótti um tvö störf á RÚV – fékk ekki einu sinni viðtal
Björn greinir frá því að skömmu eftir fall Fréttablaðsins hafi hann sótt um bæði stöðu dagskrárgerðarmanns á Rás 1 og stöðu fréttamanns hjá RÚV. Hann segir meðmæli sín hafa verið „110 prósent“ og ítrekar að hann hafi áratuga reynslu af dagskrárgerð, fréttamennsku, ritstjórn og fréttastjórn.
Þrátt fyrir það fékk hann ekki boð í viðtal vegna dagskrárgerðarstarfsins. Hann segist hafa óskað eftir rökstuðningi og birtir í færslunni tilvísun í tölvupóst frá Fanneyju Birnu þar sem hún segir RÚV ekki þurfa að rökstyðja ráðningar:
„Rúv sé ohf og því ekki ólíkt fyrirtæki á einkamarkaði!“
Björn bætir við:
„Hmmmm. Fyrir utan 8 milljarða króna meðgjöf, langmest úr vasa skattgreiðenda, hugsaði ég. En komst svo að því að Rúv vildi sennilega yngja upp á Rás 1, kennitalan mín þætti kannske fremur ósexí, Rúv þyrfti ekki meiri reynslu.“
„Krakka sem ég hafði sjálfur kennt blaðamennsku“
Niðurlægingin jókst enn að hans sögn þegar hann sótti um stöðu fréttamanns hjá RÚV. Hann segist hafa talið sig augljóslega hæfan umsækjanda, en niðurstaðan varð sú að ráðið var í starfið tvo nær reynslulausa einstaklinga:
„Krakka sem ég hafði sjálfur leiðbeint og kennt blaðamennsku á Fréttablaðinu.“
Björn segir frá vandræðalegu símtali þar sem honum var tjáð að hann hefði ekki hlotið starfið, og að fréttastjórinn hafi gefið í skyn að það myndi „litlu skila“ fyrir hann að sækja um aftur.
„Ég fékk vandræðalegt símtal um að í þetta skiptið yrði ég ekki ráðinn. Ókei svaraði ég og létti vegna vinnutímans, ég kannski sæki um síðar, sagði ég. En þá gaf fréttastjórinn í skyn að það myndi litlu skila. Kvaddi svo flóttalegur.“
Hann segist blessunarlega hafa fundið „fjölina“ sína á Samstöðinni, en notar eigin reynslu til að setja samhengi við breiðari þróun í íslenskum fjölmiðlum.
Björn fullyrðir að blaðamennska á Íslandi sé á hröðu undanhaldi:
„Senn verður búið að ýta okkur reynsluboltunum, sem kunnum íslensku og kunnum mannamál, langflestum til hliðar.“
Hann gagnrýnir einnig formann Blaðamannafélagsins, sem hann segir „klappa saman lófunum vegna fjölmiðlastyrkjanna sem fara nú til mógúlanna svo þeir geti rekið reyndasta fólkið.“
Þá lýsir hann miklum áhyggjum af framtíð fjölmiðlunar:
„Blaðamennskan í þeirri mynd sem við höfum þekkt hana nálgast dauðahrygluna. Skaði samfélagsins verður ólýsanlegur.“
Hann segir ólígarka kaupa upp einkamarkaðinn og að RÚV muni ekki halda velli „að óbreyttu“. Hann gagnrýnir að RÚV hegði sér eins og einkafyrirtæki í ráðningum, „líkt og einkaklúbbur“.
Styður almannaútvarp – en gagnrýnir stjórnunarhætti
Björn undirstrikar að lokum að hann sé áfram mikill stuðningsmaður öflugs almannaútvarps:
„Til að taka af öll tvímæli er ég mikill stuðningsmaður almannaútvarpsins og öflugrar ríkisfréttastofu. Mér þykir hins vegar miður hvernig fréttastofan og hluti dagskrárdeildarinnar hefur drabbast niður og það skrifa ég að miklu leyti á reynsluleysi, hugleysi og refilstigu.
Að því sögðu er enn margt stórkostlegt að finna á Rúv. Það sem fólkið á bak við hið frábæra á sameiginlegt er að vera mjög reynt í sínu fagi....“

Komment