
Breskir vísindamenn telja að bóluefni sem gæti komið í veg fyrir krabbamein gæti orðið að veruleika innan næsta áratugar.
Klínískar tilraunir á bóluefni sem ætlað er að koma í veg fyrir lungnakrabbamein eiga að hefjast á næsta ári. Unnið er að frekari bóluefnum sem gætu stöðvað þróun brjósta-, eggjastokka- og ristilkrabbameins í líkamanum.
Áformin gera ráð fyrir að breskir vísindamenn sameini þessi bóluefni í eina and-krabbameins sprautu sem ungmenni gætu fengið ókeypis á breska heilbrigðiskerfinu (NHS) þegar þau heimsækja heimilislækninn.
Talið er að þetta bóluefni gæti hugsanlega bjargað allt að 3,6 milljónum mannslífa á heimsvísu ár hvert, en svo margir deyja árlega af alvarlegustu tegundum krabbameins. Þá gæti það lengt meðalævi manna.
Það gæti einnig losað mikilvæg heilbrigðisútgjöld sem nýtast í baráttunni við aðra mannskæða sjúkdóma, svo sem heilabilun og hjarta- og æðasjúkdóma. Þessi stórkostlega nýsköpun er leidd af vísindamönnum við Háskólann í Oxford, að því er Daily Star greinir frá.
Verkefnið nýtur stuðnings NHS, Cancer Research UK, spænsku CRIS Cancer Foundation og fjölmargra stórra lyfjafyrirtækja.
Sarah Blagden, læknavísindamaður og prófessor í tilrauna-krabbameinslækningum við Oxford, greindi frá þessum miklu framförum í Channel 4 heimildarþáttunum Cancer Detectives: Finding the Cures.
Hún sagði jafnframt að verkefnið gæti orðið lífsbjargandi bylting innan áratugar.
Hún lýsti framtíðarsýn þar sem eitt bóluefni gæti stöðvað flest helstu krabbameinin, líkt og bólusetningar barna gegn mislingum, hettusótt, rauðum hundum, kíghósta og stífkrampa. Hugmyndin kviknaði þegar hún hlustaði á hlaðvarp í bílnum sínum.
Í þættinum ræddi prófessorinn Charles Swanton, aðstoðarforstjóri Francis Crick Institute í Lundúnum, rannsóknir sínar á því hvernig krabbamein þróast í líkamanum og verður ónæmt fyrir meðferð. Sarah, 56 ára, fékk hugdettu: að rannsóknum væri mögulega betur varið í að koma í veg fyrir að krabbamein þróist, fremur en að meðhöndla það þegar það er orðið að fullburða sjúkdómi.
Þremur árum síðar, með hjálp hraðvirkra bóluefnaaðferða sem þróuðust í heimsfaraldrinum, er teymi hennar á barmi þess að kynna heiminum bóluefni gegn lungnakrabbameini.
Hún segir:
„Við teljum að þetta sé fyrsta bóluefnið sem gæti raunverulega komið í veg fyrir að krabbamein myndist. Lungnakrabbamein tekur oft meira en áratug að þróast. Það er svokallað forstig, breytingar á frumum áður en þær verða að krabbameini. Við höfum hannað bóluefni sem virkjar ónæmiskerfið til að eyða þessum frumum.“
Hún lýsti því hvernig hún sendi Charles Swanton skilaboð eftir að hafa hlustað á hann í hlaðvarpinu, og verkefnið hófst í kjölfarið:
„Okkur datt í hug að nýta stoðir COVID-bóluefnanna sem þróaðar voru í Oxford og snúa þeim að krabbameini.“
En það tók þrjár tilraunir að fá fjármögnun vegna þess hversu nýstárleg hugmyndin var. Nú hefur fyrsta lota bóluefnisins verið framleidd í Oxford og klínísk rannsókn verður opnuð næsta sumar.
„Við erum að vinna að fjölda bóluefna sem koma í veg fyrir ólík krabbamein. Markmiðið er að sameina þau í eina bólusetningu sem væri gefin börnum. Þá myndi krabbameinshætta þeirra stórminnka.“
Blagden segir að þetta gæti orðið að veruleika á innan við 10 til 20 ára.
Hún segir að þetta marki stóra viðhorfsbreytingu í krabbameinslækningum, þar sem áherslan hefur hingað til verið á að meðhöndla sjúkdóminn þegar hann hefur þróast:
„Við erum ekki að horfa undir yfirborðið, á forstigin. Þetta er tækifæri til að stöðva krabbamein áður en það hefst.“
Teymið starfar hraðar og samhæfðar en nokkur rannsóknarhópur í heiminum á þessu sviði, segir hún.
„Við erum að reyna að búa til eitt sameinað bóluefni sem hægt er að gefa ungu fólki. Þetta gæti orðið bóluefni sem nýtist um allan heim. Ef þetta virkar, þá verðum við að halda áfram hratt.“
Hún segir að vísindamennirnir vinni af ástríðu, knúnir áfram af mannlegum ástæðum:
„Við höfum öll misst einhvern úr krabbameini. Þetta kemur frá okkur sjálfum, ekki lyfjafyrirtækjum. Okkur langar að hafa áhrif, breyta einhverju.“
Rannsóknir þeirra benda til mjög efnilegra niðurstaðna:
„Gögnin líta virkilega, virkilega vel út. Skilaboð mín til krabbameins: Við erum á leiðinni.“

Komment