
Danmörk stefnir að því að útrýma leghálskrabbameini fyrir árið 2040 þökk sé landsátaki í HPV bólusetningu og skimunarprógrammi, sagði Krabbameinsfélag Danmerkur í yfirlýsingu fyrr í dag.
„Jafnvel áður en árið 2040 rennur upp gæti sjúkdómurinn verið svo sjaldgæfur að hann teljist vera útrýmdur,“ sagði krabbameinsfélagið í yfirlýsingu. „Það væri í fyrsta sinn sem krabbamein hverfur,“ sagði þar enn fremur.
Samkvæmt rannsókn sem birt var í danska læknatímaritinu Ugeskrift for Læger er tíðni leghálskrabbameins í Danmörku nú undir 10 tilfellum á hverjar 100.000 konur. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar telst sjúkdómur vera útrýmdur þegar tíðnin er undir fjórum tilfellum á hverjar 100.000 konur.
Í Danmörku er bólusetningartíðni gegn mannapillomaveiru (HPV), aðalorsök sjúkdómsins, 89 prósent hjá 12 ára stelpum og strákum fyrir fyrri af tveimur sprautum. Það er aðeins undir markmiðinu um 90 prósent.
Ókeypis bóluefni var kynnt til leiks fyrir stelpur á árunum 2008–2009 og fyrir stráka árið 2019. Að auki samþykkja 60 prósent danskra kvenna boð um ókeypis skimun, sem er lítillega undir 70 prósenta þátttökumarkmiðinu.
Svíþjóð gæti þó orðið á undan Danmörku en það stefnir að útrýmingu leghálskrabbameins fyrir árið 2027, samkvæmt upplýsingum frá krabbameinssamtökum í Svíþjóð.
Komment