
Flosi Þorgeirsson, gítarleikari rokkhljómsveitarinnar HAM og annar tveggja þáttastjórnenda hlaðvarpsins Draugar fortíðar, rifjar upp persónulega reynslu sína af því að hætta að drekka áfengi og upplifun sem hann segir hafa fest í minni hans. Í Facebook-færslu lýsir hann því hvernig edrúmennska hans breytti sýn hans á djammið, mannlega hegðun, og síðar á opinbera persónu sem hann segir hafa hitt á djamminu.
Flosi segist hafa hætt að drekka í nóvember 2009, en ákveðið að fylgjast áfram með næturlífinu edrú:
„Ég hætti að drekka í nóvember 2009. Mér fannst áhugavert samt að kíkja á djammið edrú. Að sjá hvernig fólk varð sífellt leiðinlegra og barnalegra. Ég hélst yfirleitt ekki við lengur en til eitt eftir miðnætti. Þá var þetta yfirleitt orðið eins og versta geðveikrahæli. Ég hef reyndar bæði unnið á og legið á geðdeild og djammið var langtum verra!“
Hann segir þessa reynslu hafa styrkt ákvörðun sína um að vera edrú og horfast í augu við lífið án áfengis:
„Ég vissi auðvitað að ég hafði um langt skeið tekið fullan þátt í þessu brjálæði. Þetta gerði mig bara ákveðnari í að halda mínu striki. Raunveruleikann á maður að tækla edrú.“
Í færslunni segir Flosi frá því að hann hafi oft heimsótt bar í miðbæ Reykjavíkur, þar sem vinkonur hans störfuðu og þar sem hann sjálfur hafi stundum komið fram. Þar varð hann vitni að hegðun sem hann segir hafa farið langt yfir mörk:
„Eitt sinn tók ég eftir manni sem var afar frekur, dónalegur og sífellt öskrandi á stúlkurnar að þjónusta sig. Það kom að því að ég og kunningi minn gerðum athugasemdir við þessa hegðun mannsins. Hann brást vægast sagt illa við. Sagði að þessar ‘druslur’ væru alltaf með stæla við sig.“
Maðurinn lét ekki þar við sitja að sögn Flosa, heldur beindi spjótum sínum einnig að þeim sem bentu á hegðun hans:
„Síðan fór hann að heimta að vita hvað við værum með mikið í laun!? Sagðist sannfærður um að hann væri með vel yfir okkar samanlögð laun. Kallaði okkur aumingja því við værum „láglaunalúserar.“ Þrátt fyrir að hann þekkti okkur ekkert!?“
Flosi segir að kunningi hans hafi verið ölvaður og reiður, en edrúmennska hans sjálfs hafi líklega komið í veg fyrir átök:
„Ég dró okkur því frá þessum vitleysingi. Ég þakka fyrir að hafa ekki verið drukkinn því þessi furðulegi maður var með svokallað „kýlifés“. Semsagt svo óþolandi að öllu leyti að ég nánast heyrði hnefa minn reyna að sannfæra mig um að reka honum gott högg. Ef alkóhól hefði verið til staðar í mér hefði það eflaust tekið afstöðu með hnefanum.“
Síðar fengu vinkonur hans sem störfuðu á barnum staðfest að maðurinn væri vel þekktur meðal starfsfólks:
„Seinna sögðu vinkonur mínar mér að maðurinn væri alræmdur þarna meðal starfsmanna og þætti yfirmáta dónalegur og hrokafullur.“
Árin liðu, en atvikið gleymdist ekki. Flosi lýsir því að hann hafi síðar orðið hissa þegar hann sá manninn aftur, nú í allt öðru samhengi:
„Ímyndið ykkur furðu mína er ég var nokkru seinna að horfa á sjónvarpið. Þá var maður í fréttaviðtali. Ég þekkti strax dónann af barnum sem var með þessa miklu þráhyggju gagnvart launaseðlum annars fólks. Þarna stóð hann og talaði fjálglega eins og sá sem allt veit.“
Og að lokum kemur sú staðreynd sem Flosi segir hafa slegið sig hvað mest:
„Hann var þá nýorðinn formaður eins stærsta verkalýðsfélags landsins.“
Flosi nefnir manninn ekki á nafn í færslu sinni, en frásögnin hefur vakið töluverða athygli á Facebook en fjölmargir hafa bæði líkað við færsluna og skrifað athugasemdir.

Komment