Lögreglam á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í nótt, þar á meðal umferðaróhöppum, líkamsárásum og brotum tengdum áfengi og fíkniefnum.
Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp þar sem ekið hafði verið á kyrrstæðar bifreiðar. Í báðum tilvikum var um minniháttar tjón að ræða og engin meiðsli urðu á ökumönnum.
Lögregla stöðvaði einnig tvær bifreiðar þar sem ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Í öðru tilvikinu er ökumaður jafnframt grunaður um vörslu fíkniefna. Málin eru í rannsókn.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna einstaklings sem svaf ölvunarsvefni. Viðkomandi var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku til skoðunar.
Tvær tilkynningar bárust um þjófnað úr verslunum. Í báðum tilvikum voru grunaðir yfirheyrðir og síðan látnir lausir að lokinni skýrslutöku.
Að auki bárust tvær tilkynningar um líkamsárásir. Málin eru til rannsóknar hjá lögreglu.


Komment