
Varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, á von á því að flokksþingi Framsóknarflokksins verði flýtt.
Tilefnið er afar slæm útkoma Framsóknar í skoðanakönnunum undanfarið - og hefur flokkurinn aldrei mælst með eins lítið fylgi - 4,5% í nýjum þjóðarpúlsi Gallups - og vilja margir í flokknum fá nýtt blóð í forystu flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar sem haldnar verða í vor.
Lilja Alfreðsdóttir viðurkennir að hún sé að íhuga framboð:
„Það hafa margir komið að máli við mig. Ég er að hugsa málið en hef ekki tekið neina ákvörðun,“ sagði Lilja í samtali við fréttastofu RÚV.
Ljóst er að ólga er innan Framsóknar vegna slælegs fylgis og virðist vera um að ræða ákall um að flokksþinginu verði flýtt til að fá meiri tíma til að undirbúa flokkinn fyrir sveitarstjórnarkosningar.
Það er vilji Lilju að flýta flokksþingi:
„Ég tel að það séu meiri líkur en minni á að fólk vilji flýta flokksþingi.“
Lilja ber traust til formannsins Sigurðar Inga Jóhannssonar, en telur að það þurfi skýrari stefnumótun:
„Til að öðlast traust og trúnað þjóðarinnar,“ sagði Lilja.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Mannlífs er það einungis spurning um hvenær en ekki hvort Lilja Alfreðsdóttir býður sig fram til formanns Framsóknarflokksins.
Komment