
Eiríkur Rögnvaldsson, uppgjafaprófessor, gagnrýnir Morgunblaðið harðlega fyrir framsetningu blaðsins á málefnum örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Í færslu á Facebook segir hann Morgunblaðið halda áfram að segja „kvartsannleika“ um lífeyrisþega og bendir á að nýleg frétt blaðsins dragi upp villandi mynd af þróun mála.
Í frétt Morgunblaðsins er meðal annars haft eftir tölum að „Hlutfall örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega með íslenskan bakgrunn hefur hækkað úr 13 í 18% frá árinu 2012. [...] Sérstaklega hefur fjöldi þeirra sem fá endurhæfingarlífeyri vaxið hratt [...].“
Eiríkur bendir á að þessari umfjöllun fylgi stór mynd af Ingu Sæland, þótt hún hafi aðeins verið ráðherra í eitt ár af þeim tímabili sem vísað er til. Að hans mati sé myndaval og framsetning sniðin til að vekja ákveðin hughrif hjá lesendum.
„Svo er auðvitað bent á að fjölgunin sé nærri sexföld hjá erlendum ríkisborgurum án þess að nefnt sé að fjöldi þeirra hefur fjórfaldast á tímabilinu, og fréttinni fylgir stór mynd af Ingu Sæland sem hefur þó ekki verið ráðherra nema eitt ár af því tímabili sem um ræðir. Allt til að vekja ákveðin hughrif hjá lesendum í garð innflytjenda og ríkisstjórnarinnar.“
Hann segir jafnframt að Morgunblaðið láti hjá líða að greina frá upplýsingum í svari félags- og húsnæðismálaráðuneytisins til fjárlaga- og greiningardeildar Alþingis. Þar segir meðal annars:
„Það liggur fyrir að þeim sem fá greiddan örorkulífeyri hefur fjölgað sem hlutfall af mannfjölda síðasta áratuginn. Dregið hefur úr þessari þróun undanfarin ár og hefur nýgengi örorku lækkað. Þessa þróun er talið að megi fyrst og fremst rekja til fjölgunar þeirra sem láta reyna á starfsendurhæfingu áður en kemur til örorkumats. Vísbendingar eru um að þessi þróun hafi haldið áfram.“
Eiríkur segir skýrt að þessi þróun sé jákvæð og til hagsbóta fyrir skattgreiðendur: fólk fari í endurhæfingu og fái tímabundinn endurhæfingarlífeyri í stað þess að fara beint á varanlegan örorkulífeyri.
„En það hentar ekki Morgunblaðinu að vekja athygli á þessu,“ skrifar hann að lokum.

Komment