
Leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir gagnrýnir á beinskeyttan hátt ástand evrópskra stjórnmála í nýrri færslu á Facebook. Þar segir hún að einkunnarorðum Evrópusambandsins þurfi að breyta úr „United in diversity“ í „United in confusion“.
„Það er fín lína á milli harmleiks og farsa en Evrópa virðist nú stíga þann línudans,“ skrifar Steinunn og bætir við að í hverri viku sé tilkynnt um „sögulegan atburð“ sem reynist svo vera „lélegur leikþáttur með hrópum, mannatilfæringum, að ógleymdum myndatökunum þar sem við sjáum mjög marga fána en ekkert innihald.“
Hún líkir Evrópustjórnmálum við leiksýningu sem almenningur neyðist til að horfa á „Evrópustjórnmál eru live-action búningadrama ríka fólksins,“ segir hún og heldur áfram:
„Pólitíkusar samtímans eru eins og gjarnt var um aðalsfólk aðeins trútt þeim kóngum sem tryggja þeim skjól. Pólitíkusar egna borgurum saman með haganlega skipulögðum menningarstríðum og fleygja svo ódýrum dúsum til okkar á meðan hin raunverulegu viðskipti eiga sér stað einhverstaðar allt annars staðar.“
Steinunn segir Evrópu nú „afar skrýtið leikhús“ og að um sé að ræða sviðsetningu sem almenningur verði að viðurkenna að sé raunveruleikinn.
„Á meðan evrópska pólitíska hirðin snýst í hringi, líða borgararnir fyrir,“ skrifar hún að lokum.
Komment