
Það er ekki á hverjum degi sem heil eyðijörð er sett á sölu en það er einmitt það sem gerðist á dögunum.
Fasteignasalan INNI auglýsti jörðina Ytri-Álftavík á Víknaslóðum, formlega til sölu í síðustu viku en nokkrum dögum síðar er strax búið að hafna tveimur tilboðum.
Samkvæmt Austurfrétt er aðgengi að jörðinni ekki það besta en þangað er erfitt að ganga en aftur á móti auðvelt að komast þangað sjóleiðis, þar sem fín náttúruleg höfn er innan landmarkanna sem hentar smærri bátum vel.
Þó að stutt sé síðan jörðin var auglýst segir Sigurður Magnússon fasteignasali á Egilsstöðum, í viðtali hjá Austurfrétt, að auglýsingin hafi vakið talsverða athygli.
„Það er auðvitað afar sérstakt að fá svona eign til sölu og þrátt fyrir að hafa leitað töluvert hef ég ekki fundið önnur dæmi um heila vík á þessum slóðum sem verið hefur sett í söluferli. Jörðin er úr dánarbúi og landamerki eru skýr þó ekki sé jörðin hnitsett. Það má þó leiða líkum að því að heildarstærðin sé kringum 90 hektarar eða svo.“
Að sögn Sigurðar óskar söluaðilinn eftir tilboðum en hefur þegar hafnað tveimur slíkum tilboðum síðustu daga. Vill hann ekki tjá sig um það verð sem söluaðilinn hugsar sér en hvert tilboð verður skoðað.
Komment