
Faðir Virginia Giuffre efast um opinberu frásögnina um andlát dóttur sinnar og segir útilokað að hún hafi tekið eigið líf, hann telur einhvern hafa komið henni fyrir kattarnef.
Sky Roberts ræddi við Piers Morgan í dag og lýsti miklu áfalli og sorg sem fjölskyldan gengur nú í gegnum. „Mikið hefur verið um tár og vantrú á dauða Virginíu,“ sagði hann.
Hann bætti við: „Og svo segja þau að hún hafi svipt sig lífi, það er engin leið að það sé satt. Einhver náði til hennar.“

Virginia fannst meðvitundarlaus á heimili sínu í Ástralíu í síðasta mánuði. Neyðarviðbragðsaðilar reyndu að veita fyrstu hjálp, en hún var úrskurðuð látin á vettvangi.
Fjölskyldan gaf út yfirlýsingu þar sem fram kom að Virginia hefði tekið eigið líf og var hennar minnst sem „ódrepandi baráttukonu gegn kynferðisofbeldi og mansali.“
Sky hafði áður látið í ljós efasemdir um að dóttir hans hefði svipt sig lífi. Hann sagði að hún hefði birt myndbönd þar sem hún sagðist ekki vera í sjálfsvígshugleiðingum og að ef eitthvað kæmi fyrir hana, ættu yfirvöld að rannsaka málið. Slíkar færslur birti hún meðal annars sex árum áður en hún lést.

Roberts krefst þess nú að andlát Virginíu verði rannsakað betur, þó yfirvöld hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekkert grunsamlegt hafi átt sér stað.
Virginia Giuffre var ein af fyrstu konunum sem steig fram opinberlega gegn Jeffrey Epstein og lýsti því hvernig hún hefði aðeins 16 ára gömul verið fönguð í umfangsmikið mansal, þar sem Ghislaine Maxwell, sem nú afplánar fangelsisdóm, hafi haft lykilhlutverk.
Virginia var 41 árs gömul.
Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.
Komment