
Nefnd Palestínumanna í haldi og fyrrverandi fanga og Palestínski fangaklúbburinn (e. Palestinian Prisoners Club) hafa fordæmt Ísrael fyrir að loka rannsókn á andláti hins 17 ára gamla Walids Ahmed í Megiddo-fangelsinu í norðurhluta Ísraels.
Samtökin segja að ísraelskur dómstóll hafi fellt málið niður eftir að komist var að þeirri niðurstöðu að „engin bein glæpsamleg háttsemi“ hefði verið framin gegn Ahmed, sem var frá bænum Silwad nærri Ramallah á hernumda Vesturbakkanum.
Unglingurinn lést í mars 2025 eftir að hafa fengið blóðtappa sem stafaði af „langvarandi versnandi heilsufari“, að sögn samtakanna, sem vísa til niðurstaðna krufningar.
„Á þessu byggði dómstóllinn ákvörðun sína, án þess að taka á staðfestum áhrifum sveltis og markvissrar synjunar á læknisaðstoð, sem voru meginorsakir dauða hans,“ segir í yfirlýsingu samtakanna, sem bæta við að Ísrael hafi innleitt stefnu um hungursneyð gagnvart palestínskum föngum.
„Samtökin tvö undirstrika að mál barnsins, Walids Ahmed, sé skýrt dæmi um stefnu hernámsins um að drepa og framkvæma hægfara aftökur á föngum innan fangelsa sinna, í samræmi við stefnu öfgafullrar ríkisstjórnar [Ísraels],“ segir ennfremur.
Mannréttindasamtök hafa skráð langan lista yfir misnotkun og pyntingar Ísraels gagnvart Palestínumönnum í haldi í fangelsum landsins, sérstaklega eftir að stríðið á Gaza hófst. Ísraelska mannréttindasamtökin B’Tselem hafa lýst fangelsiskerfi Ísraels sem neti „pyntingabúða“.
Samkvæmt samtökunum er meira en 10.800 Palestínumönnum haldið í ísraelskum fangelsum við hræðilegar aðstæður, þar af 450 börn og 87 konur. Alls hafa 3.629 af þeim föngum ekki verið ákærðir né komið frammi fyrir dómara.

Komment