
Á hverju ári birtir Mannlíf pistla eftir ýmiss konar fólk og fá þeir gjarnan mikla athygli.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá hvaða fimm pistlar voru þeir vinsælustu á árinu en Mannlíf vill hvetja fólk áfram til að senda inn pistla.
Vinsælasti pistillinn er eftir Jóhann Dag Þorleifsson en hann fjallar um þá fordóma sem hann og eiginkona hans hafa mætt í kerfinu en hún er frá Gana. Henni hefur ekki tekist að fá það í gegn að heimsækja Jóhann á Íslandi.
„Sá sem ætlar að reyna að segja það að landamærin séu galopin upp á gátt og það geti hver sem er komið hingað til Íslands bara sisona er ekkert annað en heimskur lygari. Ég hef haft samband við lögfræðing og við ætlum að áfrýja. Þetta er ekki búið og ég ætla aldrei að gefast upp og Naomi mín MUN koma hingað til Íslands. Ég mun fara hart í þetta mál því ég elska konuna mína og hún elskar mig. Þetta mun kosta blóð, svita og tár en mér er alveg sama því ég er ALDREI að fara að játa mig sigraðan,“ skrifar Jóhann meðal annars í pistlinum.
Friðrik Atlason, stuðningsmaður Víkings, skrifaði pistilinn sem var næstvinsælastur á Mannlífi þetta árið en hann fjallar um komu Gylfa Sigurðssonar í Víking.
„Margar misalvarlegar sögusagnir um hvað á að hafa gerst hafa gengið á milli fólks og ég ætla ekki að tíunda þær til. En eitt hefur mér fundist vanta. Það er að Gylfi annaðhvort neiti þessum sögusögnum og segi okkur að ekkert brot hafi átt sér stað eða hann segi frá broti sínu. Ef það hafi verið minniháttar getur hann sýnt iðrun og beðist afsökunar á framferði sínu, Ef það hefur verið það alvarlegt að hann geti ekki greint frá því þá getur hann ekki látið eins og ekkert sé,“ skrifar Friðrik um málið.
Það er svo Ólafur Ágúst Hraundal sem á þriðja vinsælasta pistilinn þetta árið en hann skrifaði pistil sem fjallaði um spillingu í íslenska valdakerfinu.
„Það er eitthvað sjúkt við kerfi þar sem embættismenn sem eiga að gæta laga og réttlætis standa sjálfir fyrir spillingu, hagsmunaárekstrum og vafasömum ráðningum. Þegar ríkislögreglustjóri greiðir vinkonu sinni á annað hundruð milljón króna fyrir „ráðgjöf“ sem felur í sér að velja gardínur og pæla í píluspjöldum, þá er ekki um smávægileg mistök að ræða. Þetta er valdníðsla í sinni tærustu mynd. Og hún hefur fengið að grassera of lengi,“ skrifaði Ólafur.
Guðný Nielsen skrifaði beittan pistil og beindi orðum sínum að Kristrúnu Frostadóttur, Ingu Sælandi og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.
„Þið eruð íslenskar konur.
Engar aðrar konur í heiminum búa við jafnmikil réttindi og þið.
Engar,“ skrifaði Guðný meðal annars.
Ólafur Ágúst Hraundal var aftur á ferðinni í fimmta sætinu en þá skrifaði hann um lögregluyfirvöld á Íslandi.
„Það ríkir undarleg kyrrð í samfélaginu gagnvart þróun sem ætti að vekja upp háværar viðvörunarbjöllur. Lögregluyfirvöld og þá sérstaklega ríkislögreglustjóri virðast nú á ferðinni með að festa í sessi vald sem skerðir borgaralegt frelsi og dregur úr gagnsæi, án ábyrgðar,“ skrifaði Ólafur.

Komment