
Franski skíðaskotfimikappinn Martin Fourcade, sem hætti keppni árið 2020, fær nú sitt sjötta Ólympíugull eftir að Alþjóðaólympíunefndin (IOC) tilkynnti á föstudag að lyfjamisnotkunardómur gegn Rússanum Evgeny Ustyugov hefði verið staðfestur.
Fourcade, sem er sigursælasti Ólympíufari Frakka, bætir nú enn einu gullinu í safnið. Hann verður skráður sigurvegari í fjöldaræsingu (e mass start) á Ólympíuleikunum í Vancouver 2010, keppni sem vakti fyrst alþjóðlega athygli á honum þá aðeins 22 ára gömlum.
Samkvæmt orðum Kirsty Coventry, forseta IOC, „mun hann fá tækifæri til“ að taka við gullverðlaununum formlega á Vetrarólympíuleikunum í Mílanó-Cortina árið 2026.
Ákvörðun framkvæmdastjórnar IOC, sem fundaði í Mílanó, kom ekki á óvart þar sem í maí í fyrra var síðustu áfrýjun Ustyugov endanlega hafnað gegn úrskurði um lyfjamisnotkun, byggðum á frávikum í líffræðilegu vegabréfi hans.
Í október 2020 var Ustyugov sviptur öllum úrslitum sínum á tímabilinu 2010–2014, þar á meðal sigri í fjöldaræsingu í Vancouver.
Fourcade, sem hefur verið meðlimur í IOC frá árinu 2022, átti þegar fimm gullverðlaun á Ólympíuleikum, fyrir einstaklingskeppni og eltingarkeppni (pursuit) 2014, eltingarkeppni (pursuit), fjöldaræsingu (e. mass start) og blandað boðhlaup 2018. Hann hlaut einnig silfur í fjöldaræsingu í Sochi 2014.
Á 11 ára ferli sínum vann hann Heimsbikarkeppnina alls sjö sinnum, fleiri en nokkur annar, og hlaut 28 verðlaun á heimsmeistaramótum, þar af 13 gull. Hann lagði keppnisskíðin á hilluna í mars 2020.
Komment