
Leigubílstjórinn Friðrik Einarsson, sem kallar sig Taxý Hönter, fór inn á bílastæði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við Hverfisgötu og tók þar upp myndband af bíl sem var á bílastæðinu og birti á samfélagsmiðlum.
Í myndbandinu sýnir Friðrik illa farinn bíl og telur að ráðist hafi verið á hann. Þá segir hann að eigandi bílsins sé annar leigubílstjóri sem Friðrik hefur átt í illdeilum við. Í texta sem hann birti með myndbandinu viðurkennir hann að þetta sé á gráu svæði.
Friðrik hefur undanfarin ár tekið upp myndbönd af öðrum leigubílstjórum sem hann segir að svindli á farþegum en leigubílstjórarnir eru yfirleitt af erlendum uppruna.
Hegðun Friðriks hefur þótt umdeild og hefur hann verið sakaður um kynþáttafordóma. Þá hefur starfsmaður Keflavíkurflugvallar ásakað Friðrik um áreiti en hann var bannaður á flugvellinum fyrir hegðun sína.
„Öll óviðkomandi umferð og mannaferðir er bönnuð á athafnasvæði lögreglunnar öllum stundum,“ sagði Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um málið.
„Ef fólk „slysast“ inn á athafnasvæði lögreglu er því vísað á brott. Ef fólk kemur í annarlegum tilgangi á athafnasvæði lögreglu má það búast við því að verða handtekið.“
Þá sagði Gunnar að lögreglan myndi ekki tjá sig um myndbandið að öðru leyti.

Komment