
Undanfarið hafa fundist veikir refir, einn á Þingeyri og þrír við Keflavíkurflugvöll. Sýni náðust úr þremur þeirra og í þeim greindist skæð fuglainflúensa af gerðinni H5N5 en þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST.
Sama gerð skæðrar fuglainflúensu greindist í fuglum á Norðvesturlandi í september sl. og í fuglum og spendýrum hérlendis síðasta vetur. Greiningarnar fóru fram á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
„Skæða afbrigði fuglainflúensuveiru H5N5 greindist fyrst í spendýrum hérlendis síðastliðinn vetur í heimilisköttum, einum mink og einum ref, dreift víða um land. Þetta afbrigði hefur einnig greinst í villtum spendýrum í öðrum löndum á norðurhveli þar sem villtir fuglar hafa verið sýktir af sama afbrigði H5N5,“ segir í tilkynningu um málið
MAST hvetur fuglaeigendur eru til að gæta ítrustu smitvarna við umgengi á sínum fuglahópum. „Óljóst er hversu mikið veiran er útbreidd í villtum fuglum um þessar mundir því greiningar í þeim hafa verið fáar. Á Suðvesturlandi liggur einungis fyrir greining í hrafni sem fannst veikur í Reykjavík og því er óljóst frá hvaða fuglategundum refirnir hafa smitast.“
Komment