
Jónas Már Torfason, lögfræðingur, gagnrýnir Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra fyrir að kynna endurkomu samræmdra prófa í bænum sem sérstakt framtak Kópavogsbæjar, þrátt fyrir að um sé að ræða stöðupróf sem verða lögð fyrir í öllum grunnskólum landsins samkvæmt nýju námsmatskerfi Matsferils.
Í færslu á Facebook segir Jónas að bæjarstjórinn hafi bæði „skreytt sig með stolnum fjöðrum“ og reynt að dreifa athyglinni frá eigin ábyrgð með stórum yfirlýsingum. Hann bendir á að jafnvel ritstjórn Vísis hafi bætt inn athugasemd í frétt sína til að leiðrétta að prófin væru ekki sértækt verkefni Kópavogs heldur landsátak.
Í samtali við Morgunblaðið hafi Ásdís lýst því að ríkt hefði „algjört áhugaleysi, stefnuleysi og að hennar mati bara sinnuleysi gagnvart þessum mikilvæga málaflokki.“ Jónas tekur undir þá gagnrýni en spyr um leið hverjir hafi borið ábyrgð á stöðu menntamála á undanförnum árum.
„Síðan 1991 hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með menntamálaráðuneytið í 22 ár og Framsóknarflokkurinn í sjö,“ skrifar hann. „Þessir flokkar hafa samfleytt ráðið yfir menntamálum síðan 2013, þar til núverandi ríkisstjórn tók við í desember.“
Jónas segir mikilvægt að minna á að hnignun menntakerfisins hafi ekki hafist með núverandi ríkisstjórn heldur hafi kerfið „hægt og rólega grotnað niður undir stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins, líkt og aðrir innviðir í landinu.“
Komment