Árið 2025 einkenndist af alvarlegum sakamálum, sársaukafullum fjölskylduharmleikjum og fréttum af þekktum einstaklingum, ef marka má vinsælustu fréttir Mannlífs á árinu. Hér fyrir neðan er stutt yfirlit yfir tíu mest lesnu fréttirnar á síðunni, fréttir sem margar hverjar varpa ljósi á dramatískar atburðarásir, brotalamir í samfélaginu og veita innsýn í líf fræga fólksins.
Um leið vill ritstjórn Mannlífs þakka lesendum innilega fyrir stuðninginn á árinu og óskum við þjóðinni gæfuríks komandi árs, fullu af birtu og yl.
10. Maria tekin með tvö kíló af kóki í Leifsstöð
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í nóvember Mariu Josefu Exposito Urriza í 21 mánaða fangelsi fyrir innflutning á tæpum tveimur kílóum af kókaíni. Hún játaði brotið en hún hafði ekki áður gerst brotleg hér á landi.
9. Margrét Löf játar ofbeldi gegn foreldrum sínum
Morðið á Hans Löf skók samfélagið í apríl en nýlega var dóttir hans, Margrét Löf dæmd í 16 ára fangelsi fyrir að valda dauða hans.
Í níundu mest lesnu frétt ársins hjá Mannlífi er sagt frá því að Margrét Halla Hansdóttir Löf hafi játað að hafa beitt foreldra sína ofbeldi. Hún neitaði þó að hafa átt þátt í andláti föður síns.
8. Margrét Löf neitar sök í andláti föður síns
Í annarri vinsælli frétt um sama mál kemur fram að Margrét neiti sök vegna andláts föður síns í Garðabæ. Rannsókn málsins var umfangsmikil og beindist meðal annars að gagnaöflun og smáatriðum í atburðarásinni, að því er fram kom í fréttinni.
7. Minningarathöfn á Fáskrúðsfirði vegna andláts ungrar konu
Djúp sorg ríkti á Fáskrúðsfirði í ágúst eftir sviplegt andlát ungrar konu. Í sjöundu mest lesnu fréttinni var sagt frá minningarathöfn sem haldin var í kirkju bæjarins, um Bríeti Irmu Ómarsdóttur, 24 ára. Rætt var við prest í Fjarðabyggð sem sagði samfélagið í áfalli.
6. Eiginmaður Jóhönnu Guðrúnar heldur áfram að tapa peningum
Pizzan ehf., í eigu Ólafs Friðriks Ólafssonar, eiginmanns Jóhönnu Guðrúnar, tapaði 55,7 milljónum á síðasta ári. Frá þessu sagði Mannlíf og lesendur kunnu að meta það. Í fréttinni kom einnig fram að þrátt fyrir bættan rekstur hafi fyrirtækið verið rekið með tapi árum saman.
5. Kominn fimmtán ára á Litla-Hraun
Fimmta mest lesna frétt Mannlífs árið 2025 er nærmynd af Stefáni Blackburn.
Stefán Blackburn er einn af þremur mönnum sem dæmdir voru fyrir rán og manndráp í mars en maður á sjötugsaldri fannst nær dauða en lífi í Gufunesbæ og lést síðar á sjúkrahúsi. Stefán hóf glæpaferil aðeins 15 ára gamall. Fréttin rýnir í langa brotasögu hans og hvernig málið þróaðist.
4. Bænastund í Mosfellsbæ vegna andláts 13 ára drengs
Enn eitt áfallið reið yfir Ísland þegar ungur drengur lést í Mosfellsbæ en fjórða mest lesna fréttin fjallaði um þá sorg sem Mosfellingar upplifðu í kjölfar andlátsins.
Bænastund var haldin í Lágafellskirkju og bæjaryfirvöld og skólasamfélagið hrundu af stað mikilli sálgæslu vegna atburðarins.
3. Myndband af systur níu ára stúlkunnar í Reynisfjöru vekur heimsathygli
Níu ára þýsk stúlka lést í hræðilegu slysi í Reynisfjöru í ágústbyrjun. Mannlíf sagði frá myndbandi sem sýndi systur níu ára stúlkunnar kalla á hjálp en þegar fréttin var rituð hafði verið horft á það tæplega 800 þúsund sinnum á samfélagsmiðlunum. Atburðurinn í Reynisfjöru vakti upp umræð um öryggi ferðamanna.
2. Myndband í dreifingu af slysinu í Reynisfjöru
Annað myndband frá sama harmleik fór eins og eldur í sinu um netið og um það fjallaði næst mest lesna frétt Mannlífs á árinu. Þar sjást ferðamenn í ráðaleysi fylgjast með þegar stúlkan berst út með straumnum. Hún var síðar úrskurðuð látin.
1. Jóhanna Guðrún gerði kaupmála við eiginmanninn
Vinsælasta frétt ársins fjallar um kaupmála söngkonunnar Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur og eiginmanns hennar, Ólafs Ólafssonar, sem þau gerðu á árinu. Greint var frá samningnum í Lögbirtingablaðinu og greip Mannlíf það á lofti og reyndist sannspátt um áhuga lesenda á málinu.


Komment