
Matvælastofnun hefur hafið rannsókn á mögulegu stroki eldisfisks frá Kaldvík í Reyðarfirði eftir að þrjú göt fundust á nótarpoka í einni kvínni á eldissvæðinu Hafranesi. Tilkynning um atvikið barst stofnuninni þriðjudaginn 18. nóvember.
Götin uppgötvuðust við reglubundið neðansjávareftirlit og var viðgerð framkvæmd samdægurs. Öll voru göt á u.þ.b. 16 metra dýpi, hlið við hlið og langsum eftir pokanum. Stærðir þeirra voru annars vegar 16 x 5 sentímetrar, 14 x 4 sentímetrar og 12 x 4 sentímetrar.
Í kvínni voru 193.164 laxaseiði með meðalþyngd 214 grömm. Síðast hafði verið framkvæmt neðansjávareftirlit 29. október og þá voru engin merki um skemmdir á búnaðinum.
Fyrirtækið taldi litlar líkur á stroki og virkjaði ekki viðbragðsáætlun. Matvælastofnun telur þó ekki hægt að útiloka að fiskur hafi komist undan og hefur því ákveðið að hefja rannsókn á málinu.
Frekari upplýsingar verða veittar þegar rannsókn miðar áfram.

Komment