
Gunnvör Daníelsdóttir Ásmundsson, fjallkona á Íslendingadeginum í Gimli síðastliðið sumar, er látin, 80 ára að aldri. Mbl.is sagði frá andlátinu.
Gunnvör var fædd í Ytri-Njarðvík 8. október 1945, dóttir Jennýjar Þórkötlu Magnúsdóttur og Daníels Ögmundssonar. Hún flutti til Kanada árið 1970 og varð þar fljótt einn af burðarásum íslensks samfélags í Manitoba. Hún tók á móti ótal nýbúum frá Íslandi af hlýju og rausn, hjálpaði þeim að fóta sig í nýju landi og skapa tengsl við Íslendingabyggðirnar.
Áralangt starf Gunnvarar við að efla íslenska menningu og tungu í Kanada var ómetanlegt. Hún starfaði sem ritari og gjaldkeri þjóðræknisdeildar Fróns og kom að skipulagningu fjölmargra viðburða þar sem íslenskan var í fyrirrúmi. Hún var ein af hvatakonum Íslensku tungu- og menningarbúðanna og kenndi einnig íslensku á kvöldnámskeiðum víða um svæðið.
Gunnvör stóð að fyrsta þorrablótinu í Winnipeg um 1976 og stofnaði Kvennahlaup Íslendinganna árið 2004, þar sem safnað var fyrir góð málefni, meðal annars til styrktar rannsóknum gegn krabbameini. Hún lagði einnig mikið af mörkum til Íslendingablaðsins Lögbergs-Heimskringlu og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum þar í stjórn.
Árið 2015 hlaut hún Laurence S.G. Johnson-verðlaun Icelandic National League of North America fyrir óeigingjarnt sjálfboðastarf og ómetanlegt framlag til varðveislu íslenskrar arfleifðar.
Gunnvör lætur eftir sig fyrrverandi eiginmann sinn, Snorra Ásmundsson, sem er búsettur í Gimli, þrjú börn og þrjú barnabörn. Hennar verður minnst með þakklæti og virðingu fyrir ævilangt starf í þágu íslensks menningararfs í nýju landi.

Komment