
Halldór Blöndal er látinn, 87 ára að aldri. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi aðfaranótt þriðjudags. Frá þessu greinir RÚV.
Halldór átti að baki langan og farsælan feril í stjórnmálum og sat á Alþingi samfellt í nær þrjá áratugi. Hann var fyrst kjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandi eystra árið 1979 og gegndi þingmennsku til ársins 2007.
Halldór fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1938 og ólst upp við Laugaveg. Foreldrar hans voru Kristjana Benediktsdóttir, systir Bjarna Benediktssonar fyrrverandi forsætisráðherra, og Lárus H. Blöndal bókavörður. Hann var einn fimm systkina. Halldór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1959 og stundaði síðar nám í lögfræði og sagnfræði við Háskóla Íslands.
Áður en hann hóf stjórnmálaferil sinn starfaði Halldór meðal annars við hvalveiðar í Hvalfirði í fimmtán vertíðum, þar sem hann vann við hvalskurð. Þá sinnti hann blaðamennsku og kennslu og ritstýrði fjölda tímarita, þar á meðal Gambra, Munni, Vöku, Vesturlandi og Íslendingi. Hann starfaði jafnframt sem blaðamaður á Morgunblaðinu með hléum frá 1961 til 1979 og við endurskoðunarstörf á Akureyri um skeið.
Halldór settist fyrst á Alþingi sem varaþingmaður árið 1971, en var kjörinn þingmaður árið 1979. Hann var þingmaður Norðurlands eystra til ársins 2003 og síðar þingmaður Norðausturkjördæmis eftir breytingar á kjördæmaskipan.
Á ráðherraferli sínum gegndi Halldór embætti landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1991 til 1995 og var samgönguráðherra frá 1995 til 1999. Hann var forseti Alþingis á árunum 1999 til 2005.
Halldór kvæntist fyrst Renötu Brynju Kristjánsdóttur árið 1960 og eignuðust þau tvær dætur, Ragnhildi og Stellu, en hjónabandinu lauk síðar. Renata lést árið 1982. Síðar kvæntist hann Kristrúnu Eymundsdóttur og eignuðust þau soninn Pétur. Kristrún lést árið 2018.

Komment