Halldór Logi Sigurðsson hefur verið dæmdur í fangelsi af Héraðsdómi Reykjaness en dómur þess efnis var birtur fyrir stuttu.
Halldór var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps í Reykjanesbæ í júní en þá stakk hann mann á sjötugsaldri ítrekað með hníf. Fórnarlamb hans var flutt á sjúkrahús en Halldór var farinn af vettvangi þegar lögreglan mætti á svæðið. Hann fannst síðar í heimahúsi og var handtekinn.
Í dómnum kemur fram að fórnarlamb Halldórs hafi ætlað að reka hann burtu af lóð sinni þegar hann greip Halldór í því að vera að berja í bílskúr sinn. Halldór hafi ráðist á hann í kjölfarið. Fórnarlambið var með stunguáverka á hendi, hnakka og baki.
Samkvæmt geðlækni sem lagði mat á ástand Halldórs var hann í geðrofi þegar árásin átti sér stað en mat hann sakhæfan.
Halldór Logi var dæmdur í fimm ára fangelsi og þarf að greiða fórnarlambinu rúmar 3,2 milljónir króna í bætur.

Komment