Theodóra Líf Aradóttir er allt annað en sátt við íslenska réttarkerfið og greinir hún frá þeirri skoðun í pistli sem hún skrifaði um málið, en hún titlar sig sem 15 ára baráttukonu.
„Réttarkerfið á að standa vörð um þau sem minnst mega sín, þau sem ekki geta varið sig, og þar á meðal eru börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu,“ skrifar Theodóra í pistlinum sem birtist á Vísi. „En þegar litið er til þeirra barna sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður, eiga um sárt að binda vegna vanrækslu, ofbeldis eða flókinna forræðisdeilna, kemur í ljós að réttarkerfið bregst oftar en ekki. Í stað þess að vera hluti af lausninni, verður það hluti af vandanum. Það er kerfi sem í sumum tilfellum vinnur gegn börnunum, þeim sem það á að vernda.“
Hún segir einnig að í fjölmörgum málum þar sem börn eru í hættu eða búa við óviðunandi aðstæður, geti það tekið mánuði eða jafnvel ár, fyrir dómstóla að komast að niðurstöðu. „Meðan beðið er eftir úrskurði, lifa börnin í óvissu og óöryggi. Þau eru föst í aðstæðum sem geta haft djúpstæð áhrif á þroska, líðan og framtíð þeirra. Réttarkerfið, sem á að tryggja réttaröryggi og velferð, verður þá að kerfi sem tefur úrbætur, staðnar í flóknum ferlum og skorti á samhæfingu milli stofnana,“ heldur hún áfram.
Brot á grundvallarreglum
„Það sem gerir ástandið enn alvarlegra er sú staðreynd að raddir barnanna sjálfra heyrast of sjaldan í málsmeðferðinni. Þótt barnið sé í miðju málsins, eru ákvarðanir teknar af fullorðnum, lögfræðingum, forráðamönnum, starfsmönnum stofnana, án þess að barnið fái raunverulegt tækifæri til að tjá sig eða hafa áhrif á ákvörðun sem snertir líf þeirra djúpt.“
Það felur í sér brot á grundvallarreglum um rétt barna til þátttöku í eigin málum, eins og kveðið er á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að sögn Theodóru. Börn þurfi einfaldlega að laga sig að kerfi sem vinnur ekki á þeirra forsendum að mati hennar.
„Slík afstaða, að líta á börn sem viðföng frekar en virka þátttakendur, sem viðheldur ójafnvægi og dregur úr mannréttindalegu vægi mála þeirra. Það þarf ekki að koma á óvart að margir einstaklingar, sem hafa upplifað barnavernd eða forræðismál á eigin skinni, lýsa þeim sem tíma vanmáttar, kvíða og þöggunar.“
Börn eigi rétt á réttlæti
Theodóra segir einnig að ef markmið réttarkerfisins er í raun að vernda hagsmuni barnsins, þá verði að ráðast í róttæka endurskoðun.
„Það þarf að tryggja hraðari málsmeðferð, aukið aðgengi að sérfræðikunnáttu í barnamálum og skipulagða, samþætta samvinnu milli allra þeirra stofnana sem koma að málinu. Ekki síður þarf að tryggja að rödd barnsins sé ekki aðeins heyrð, heldur virt og tekin alvarlega. Kerfið má ekki vera þröskuldur, það á að vera brú,“ og að börn eigi rétt á réttlæti sem er barnvænt, skilvirkt og mannúðlegt.
„Þau eiga betra skilið en kerfi sem vinnur beinlínis gegn þeim,“ skrifar baráttukonan að lokum.


Komment