
Hjálmtýr Heiðdal, formaður félagsins Ísland–Palestína, hefur svarað opinberlega Facebook-færslu Stefáns Einars Stefánssonar fjölmiðlamanns, þar sem sá síðarnefndi spurði hvar nokkrir nafngreindir aðgerðasinnar væru staddir og af hverju ekkert heyrist í þeim varðandi mótmælin í Íran sem nú standa yfir en meira en 200 mótmælendur hafa verið drepnir undanfarna daga. Hjálmtýr segir færsluna bera vott um tilraun til að grafa undan stuðningi við Palestínu með ásökunum um þögn gagnvart kúgun í Íran og hafnar jafnframt fullyrðingum um gyðingahatur.
Stefán Einar spurði á Facebook-síðu sinni: „Og hvar er Magga Stína? Hjálmtýr Heiðdal? Illugi Jökulsson? Sveinn Rúnar Hauksson?“ Í svari Hjálmtýs, sem hann birti einnig á eigin síðu, segir hann spurninguna byggða á þeirri hugmynd að stuðningsfólk Palestínu hafi ekki fordæmt klerkastjórnina í Íran.
„Ég get upplýst hann um að ég er heima hjá mér og skrifa þessi orð,“ skrifar Hjálmtýr og bætir við að „söknuður“ Stefáns Einars tengist því að hann vilji að nefndir einstaklingar fordæmi stjórnvöld í Íran opinberlega. Hjálmtýr segir hins vegar að það sem sameini fólkið sem Stefán Einar nefnir sé andstaða gegn allri kúgun, óháð landi eða stjórnarfari.
„Þessir einstaklingar sem SES nefnir eiga það sameiginlegt að vera andstæðingar allrar kúgunar – í Íran, í Rússlandi, í Bandaríkjunum, í Venesúela og í Palestínu,“ skrifar Hjálmtýr.
Í færslu sinni gagnrýnir Hjálmtýr einnig harðlega þá orðræðu sem hann segir Stefán Einar viðhafa í garð stuðningsfólks Palestínu og hafnar því að andstaða við Ísrael jafngildi gyðingahatri.
„Hann segir okkur vera gyðingahatara og drýgir þar með þann glæp að segja að gyðingar stundi þjóðarmorð,“ skrifar Hjálmtýr og leggur áherslu á að aðgreina þurfi trú og stjórnmálastefnu. „Gyðingdómur og síonismi eiga ekkert sameiginlegt. Síonisminn er stjórnmálastefna byggð á kynþáttahyggju og nýlendustefnu en gyðingdómur er trú eins og kristni og Islam.“
Hjálmtýr bendir jafnframt á að meðal gyðinga séu bæði stuðningsmenn og andstæðingar síonisma og að öflugustu gagnrýnendur stefnu Ísraels séu einmitt gyðingar og fólk af gyðingaættum.
Varðandi þá spurningu hvers vegna mótmæli gegn Íran sjáist síður á götum Íslands en mótmæli gegn Ísrael, segir Hjálmtýr að þar skipti máli tengsl Íslands við ríkin tvö. Hann segir íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig með alþjóðasamningum til að bregðast við þjóðarmorði og að Ísland hafi beinar pólitískar og diplómatískar tengingar við Ísrael.
„Andstaðan gegn Ísrael og síonismanum birtist hér á götum og torgum vegna þess að Ísland tengist Ísrael á margan hátt og að íslensk stjórnvöld hafa undirritað sáttmála og samninga sem skuldbinda þau til að bregðast við þjóðarmorði með alvöru aðgerðum,“ skrifar hann.
Hann bendir jafnframt á að íslensk stjórnvöld hafi þegar fordæmt stjórnvöld í Íran, meðal annars í gegnum málflutning Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og að staðan gagnvart Íran sé því önnur.
„Allt fólk með óbrenglaða réttlætiskennd fordæmir kúgunina í Íran – en gleymir ekki kúguninni í Ísrael – sem SES styður,“ skrifar Hjálmtýr að lokum.

Komment