
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt og komu upp nokkur mál tengd umferð, vímuefnum og almennu regluverki.
Alls voru fjórir ökumenn stöðvaðir í akstri grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Í öllum tilvikum voru málin sett í hefðbundið ferli og voru allir aðilar látnir lausir að því loknu.
Einn einstaklingur var handtekinn þar sem hann var í annarlegu ástandi og sinnti ekki fyrirmælum lögreglu. Viðkomandi var vistaður í fangageymslu vegna ástands síns.
Lögregla sinnti einnig tveimur málum þar sem aðilar voru grunaðir um vörslu eða meðferð ávana- og fíkniefna. Bæði málin voru leyst með vettvangsskýrslu.
Þá var lögregla kölluð til vegna umferðaróhapps. Engin slys urðu á fólki og aðstoðaði lögregla þá sem í óhappinu lentu.
Að auki voru tveir ökumenn stöðvaðir í akstri, annars vegar vegna aksturs sviptur ökuréttindum og hins vegar vegna aksturs án gildra ökuréttinda. Í báðum tilvikum voru málin afgreidd með vettvangsskýrslu og ökumenn látnir lausir.

Komment