
Þótt ekki sé hægt að fullyrða það með vissu, eru sterkar líkur á að óvenjulegur maíhiti hafi kallað ýmis kvikindi til lífs, þar á meðal lúsmý, sem hefur ekki verið vinsæll gestur frá því hann sást fyrst austanlands fyrir um þremur árum. Þetta kemur fram í umfjöllun Austurfréttar.
Víða um Austurland hefur veðrið í maí verið óvanalega milt og hlýtt. Á meðan fréttin er skrifuð mælist 20 stiga hiti á Egilsstaðaflugvelli, heiðskýrt og sólskin. Slíkt veður er ekki algjör undantekning í maí, en engu að síður óvenjulegt, og spár gera ráð fyrir áframhaldandi hlýindum fram í næstu viku.
Engar formlegar tilkynningar hafa enn borist Náttúrustofu Austurlands um lúsmý að sögn Kristínar Ágústsdóttur forstöðumanns, en bóndi í Hróarstungu telur þó fulla ástæðu til að ætla að hann hafi orðið var við lúsmý síðdegis í gær.
Bóndinn, sem vill ekki láta nafns síns getið, segist kunna vel að greina á milli mýtegunda og sé nánast enginn vafi á að um lúsmý hafi verið að ræða. Hann nefnir meðal annars útbrot og bólur ásamt miklum kláða eftir stungur síðdegis í gær, sem bendi til lúsmýs fremur en hefðbundins mýs.
Kristín Ágústsdóttir segir hlýindin skapa kjöraðstæður fyrir lúsmý.
„Það var auðvitað búið að staðfesta fyrir nokkrum árum að lúsmýið væri komið austur á land en við höfum ekki fregnað neitt þeim tengt hingað til á árinu. Þá er vitaskuld eðlilegt að þær fari á kreik ef aðstæður eru með góðu móti sem hefur verið raunin undanfarið. En það er sannarlega við því að búast að þær geri vart við sig.“
Komment