
Fjölskyldufríið í Taílandi átti að verða einstakt. Jól, áramót og fimm ára afmæli í hitanum.
Í staðinn varð dvölin allt öðruvísi fyrir hinn fjögurra ára gamla Adrian og fjölskyldu hans, eftir að hann slasaðist á hótelinu þar sem þau dvöldu á Koh Lanta.
Slysið átti sér stað 21. desember, aðeins tveimur dögum eftir að fjölskyldan kom til Taílands og á hótelið.
„Við vorum nýbúin að borða hádegismat á ströndinni og vorum komin aftur á hótelið. Adrian þurfti að fara á klósettið og var á leið inn í bústaðinn þar sem frændi hans var einnig inni, segir móðir hans, hin sænska Sarah Hedström í samtali við Aftonbladet.
En þegar Adrian ætlaði að fara inn tók hann ekki eftir því að glerhurðin var lokuð og gekk beint á hana.
„Þetta tók aðeins nokkrar sekúndur. Ég heyrði brothljóð og svo fór hann að öskra,“ segir Sarah.
Adrian hlaut fjölmarga skurði og Sarah fór að kalla á hjálp og biðja einhvern um að hringja á sjúkrabíl. Fyrir algjöra tilviljun voru bæði svæfingalæknir frá Stokkhólmi og slökkviliðsmaður frá Danmörku á hótelinu. Þau komu hlaupandi og gátu veitt fyrstu hjálp þar til sjúkrabíllinn kom á staðinn.
239 spor
Adrian og móðir hans voru fyrst flutt á heilsugæslustöð þar sem stærstu sárin voru saumuð tímabundið. Því næst voru þau flutt á stærra sjúkrahús í Trang, þar sem Adrian gekkst undir um fjögurra klukkustunda aðgerð.
„Hann endaði með 239 spor. Það er enn erfitt að átta sig á því,“ segir Sarah.
Eftir nokkra daga á sjúkrahúsi er fjölskyldan nú komin aftur á hótelið, þar sem fríið heldur áfram við allt aðrar aðstæður.
„Hann þolir hitann ekki vel eins og staðan er núna, þannig að við verðum að vera mikið inni á herberginu með loftkælingunni. Sárin klæja og hann er bólginn. Hvíld er lykilatriði.“
„Ósköp venjuleg glerhurð“
Sár Adrians eru reglulega skoðuð í samráði við lækni. Hann er með verki og getur ekki tekið þátt í leikjum og afþreyingu með eldri bróður sínum og frændsystkinum.
„Hann liggur mest í rúminu og horfir á iPad,“ segir Sarah.
Hún vill hvetja aðra ferðalanga til að huga sérstaklega að öryggi á hótelum í Taílandi.
„Þetta var ósköp venjuleg glerhurð. Það virðist ekki eðlilegt að barn sem vegur um 20 kíló geti gengið beint í gegnum hana.“
Eftir slysið hafa fleiri gestir hótelsins sett pappír og annað á glerhurðirnar til að gera þær sýnilegri.
„Fólk er hrætt um að þetta geti gerst aftur,“ segir Sarah.
Fjölskyldan hyggst dvelja í Taílandi til 10. janúar. Fimm ára afmæli Adrians nálgast og vonast er til að hann geti haldið upp á það.
„Við fengum ferðina í jólagjöf í fyrra og Adrian hefur beðið spenntur eftir að halda jól, áramót og afmælið sitt hér. Hann hefur hlakkað til í heilt ár og sagt öllum á leikskólanum frá því,“ segir Sarah.
Að svo stöddu er þó áherslan á að hann nái sér sem fyrst.
„Nú tökum við þetta einn dag í einu og einbeitum okkur að því að honum líði betur.“

Komment