
Það gæti verið í fyrsta sinn sem svonefnd hundasogslús hafi greinst í íslenskum refi, en uppgötvunin kom eftir ábendingu frá Reimari Péturssyni, uppstoppara á Egilsstöðum.
Frá þessu var greint á vef Náttúrustofu Austurlands nýlega. Þar kemur fram að Reimar hafi haft samband við stofnunina í byrjun síðasta mánaðar eftir að hann tók eftir óvenjulegum lit á kvið refs sem hann var nýbúinn að súta.
„Ætli ég hafi ekki stoppað upp hundruðir og jafnvel vel yfir þúsund refahræ gegnum tíðina svo ég veitti þessu strax athygli en þó ekki fyrr en ég var búinn á súta dýrið. Þá varð óvenjulegur liturinn sérstaklega áberandi og þegar ég skoðaði betur tók ég eftir þessum óvenjulegu skordýrum í hárum dýrsins.,“ segir Reimar.
Náttúrustofan tók við sýninu og skoðaði það í smásjá. Í framhaldinu var haft samband við sérfræðinga í dýrafræði á suðvesturhorninu og niðurstaðan var sú að um væri að ræða hundasogslús, tegund sem venjulega finnst á hundum, eins og nafnið gefur til kynna. Enn er unnið að nánari greiningu, en líkur eru taldar sterkar á að um sé að ræða þessa tegund.
Reimar bendir á að slík sníkjudýr séu þekkt erlendis, en athyglisvert sé að mismunandi afbrigði þeirra virðast finnast bæði á Svalbarða og í Noregi. Þar hefur verið sett fram sú kenning að lýs á refum á þeim svæðum tilheyri annarri tegund en hundasogslúsinni.
Komment