
„Þetta er þungt tap, við vorum frábærir í 70.mínútur og hefðum geta skorað fleiri mörk, settum boltann einu sinni í slánna og fleiri færi þannig þetta var þungt tap" sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA eftir 3-2 tap gegn Stjörnunni á Samsungvellinum í Garðabæ í samtali við fótbolta.net.
Hallgrímur var auðvitað ekki sáttur við tap sinna manna gegn Stjörnunni, en honum finnst ýmislegt athugavert í undirbúningi Stjörnumanna fyrir leiki:
„Ég er í námi með Jökli [Elísabetarsyni, þjálfara Stjörnunnar, innskot blm] og kann rosalega við hann og er að gera vel og ég ætla að leyfa honum að njóta vafans að hann sé ekki að stjórna þessu.“
Með orðum sínum er Hallgrímur að beina athyglinni að móttöku liða er mæta í Garðabæ til að etja kappi gegn Stjörnunni:
„En hvernig Stjarnan tekur á móti liðunum hérna, hvernig þeir haga sér er til háborinnar skammar og KSÍ þarf að fara gera eitthvað í þessu" segir hann og bætir því við að þetta séu „mörg atriði, skila skýrslu of seint inn og þykjast ekki vita að hún eigi að koma þarna og allt óvart en voru svo nákvæmlega með á hreinu að það þyrfti ekki að skrifa undir fyrr en 45 mínútum seinna þannig okkar skýrsla birtist fyrr."
Hallgrímur segir að Stjarnan sé „eina liðið á landinu sem hefur völlinn skraufaþurran þegar við erum að hita upp og svo þegar við förum í spil eftir að hafa haldið bolta þá rennbleyta þeir okkur alla og sprauta inn í skýlið okkar og sprauta útum allt hérna.“
Hallgrímur telur þessa hegðun ekki til sóma og að þetta sé „bara lágkúrulegt og til skammar að félagið skuli haga sér svona. Þetta er eina liðið á Íslandi sem gerir þetta og þetta er ekki í fyrsta skiptið, þetta var nákvæmlega eins í fyrra. Eru þeir að reyna komast inn í hausinn á liðunum? Ég veit það ekki en þetta er bara ógeðslega lélegt" voru lokaorðin Hallgríms.
Komment