
Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra hefur undirritað reglugerð sem kveður á um hækkun frítekjumarka húsnæðisbóta frá og með 1. september næstkomandi. Breytingin tengist upptöku nýs örorkulífeyriskerfis sem tekur gildi sama dag.
„Örorkulífeyrisgreiðslur munu almennt hækka þegar nýja kerfið tekur gildi. Til að koma í veg fyrir að lífeyrisþegar lendi í því að húsnæðisbætur þeirra skerðist vegna hækkunarinnar var nauðsynlegt að hækka frítekjumörk húsnæðisbótanna. Það hef ég nú gert og reglugerðin tekur gildi strax um mánaðarmótin,“ segir ráðherra á vef Stjórnarráðsins.
Samkvæmt reglugerðinni verða frítekjumörk þess sem býr einn 5.977.276 krónur á ári. Frítekjumörk fjölmennari heimila ákvarðast eftir sérstökum stuðlum húsnæðisbóta. Þannig verða frítekjumörk tveggja manna heimilis tæpar 7,95 milljónir króna, þriggja manna heimilis rúmar 9,26 milljónir og heimilis með sex eða fleiri einstaklingum um 11,7 milljónir króna.

Markmiðið með breytingunni er að tryggja að hærri lífeyrisgreiðslur leiði ekki til skerðingar á húsnæðisbótum og að lífeyrisþegar njóti raunverulegra kjarabóta þegar nýja kerfið tekur gildi.
Komment