
Íslenskir rithöfundar hafa fengið sig fullsadda af starfsháttum sænsku streymisveitunnar Storytel, sem greiðir rithöfundum brot af því sem þeir fá þegar bækur eru seldar en þeim ekki streymt.
Steininn virðist hafa tekið úr við aukna notkun Storytel á gervigreind til þýðingar og jafnvel bókaskrifa.
Rithöfundasamband Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem sambandið hvetur rithöfunda til þess að beita sér gegn því að verkum þeirra sé miðlað á Storytel þar til sænski streymisrisinn gengur „til samninga við sambandið um rammasamning sem myndi fela í sér sanngjarnt og gagnsætt endurgjald til höfunda af útgáfu hljóðbóka,“ eins og segir í yfirlýsingunni. „Þar til slíkir samningar hafa verið gerðir hvetur Rithöfundasambandið félagsmenn til þess að beita sér fyrir því að ný verk verði ekki sett inn á streymisveituna.“
Í janúar kynnti Storytel fyrstu bókina sem félagið lét framleiða af gervigreind. Þá hefur gervigreind í auknum mæli verið notuð til þýðinga á bókum.
„Rithöfundasambandið skorar jafnframt á Storytel á Íslandi að tryggja að gervigreind verði hvorki notuð til þess að skrifa bækur né þýða þær yfir á íslensku. Rithöfundasambandið minnir Storytel á að fyrirtækið byggir grundvöll sinn á hugverkum rithöfunda og þýðenda, og að bókmenntir og listir verða eingöngu skapaðar af listamönnum en ekki vélum,“ segir í áskorun Rithöfundasambands Íslands.
Komment