
Það hefði einu sinni þótt ótrúlegt að íslenskur landi færði heim gullverðlaun á stórri alþjóðlegri áfengis- og vínhátíð, en það er nú orðið staðreynd. Landi KHB brugghússins á Borgarfirði eystra hlaut nýverið gullverðlaun á Las Vegas Global Spirits Awards fyrir hinn hefðbundna íslenska landa sinn, aðeins þremur mánuðum eftir að hafa unnið gull á World Beer Awards fyrir súrbjórinn Stúlku. Frá þessu greinir Austurfrétt.
Lengi vel var landi bruggaður í leyni og með misjöfnum árangri og ekki var óalgengt að unglingar stælu smá landa af öfum sínum þegar illa gekk að komast í Ríkið, en tímarnir hafa breyst. KHB hefur vakið mikla athygli erlendis fyrir gæði framleiðslunnar, og að sögn Helga Sigurðssonar, eiganda brugghússins, er markmiðið skýrt, að koma íslenskum landa á erlendan markað.
„Við sendum í keppnina bæði Landann okkar og Eikarlandann,“ segir Helgi í samtali við Austurfrétt.„ Munurinn liggur í að Eikarlandinn fær að hvíla í eikartunnum um eins árs skeið og sá fékk mjög flotta einkunn hjá dómurunum þó að þessi hefðbundni hefði unnið gullið í landaflokknum sem vestanhafs er auðvitað kallað moonshine. Ég fékk þá hugmynd að senda í þessa keppni þar sem ég veitti því athygli að þeir bandarísku ferðamenn sem komu hingað í sumar með skemmtiferðaskipunum voru svo hrifnir af landanum. Svo mér lék forvitni á að vita hvernig myndi ganga í stórri keppni og það gekk svona frábærlega.“
Einn dómari hafi jafnvel sagt í léttum tón að íslenski landinn hefði „ekki gefið honum hroll eins og landi afa hans á sínum tíma“.
Helgi segir að verðlaunin skipti miklu máli fyrir framtíðaráform brugghússins.
„Við erum nú að skoða það að koma vörum okkar í verslanir í Bandaríkjunum og verðlaun sem þessi hjálpa okkur að komast með fótinn innfyrir dyrnar því nóg er samkeppnin á þessum markaði.“
Á meðan flestir tengja landa við gamla heimabruggið, þá er Landi KHB orðinn alþjóðlega viðurkenndur drykkur, og enn eitt dæmið um að íslensk handverk og hefðir geta slegið í gegn langt út fyrir landsteinana.

Komment