
Þjóðarmorð Ísraela á Gaza heldur áfram en í dag réðust ísraelskar sérsveitir á útisjúkrahús Rauða krossins í Rafah og handtóku þar Dr. Marwan al-Hams, yfirmann sjúkrahúss í suðurhluta borgarinnar og stjórnanda útisjúkrahúsa á Gaza. Palestínskir fjölmiðlar segja að honum hafa verið „rænt“ af sérsveitum, og að blaðamaðurinn Tamer al-Zaanin hafi verið skotinn til bana af ísraelskum hermönnum í sömu árás.
Samkvæmt upplýsingum frá upplýsingaskrifstofu stjórnvalda á Gaza skutu ísraelskir hermenn á sjúkrabíl sem flutti al-Hams og þrjá aðra. Tveir voru særðir, bílstjóri sjúkrabílsins og ljósmyndari. Skrifstofan kallar árásina „stríðsglæp“ og Hamas-hreyfingin hefur sakað Ísrael um kerfisbundna og vísvitandi árásarherferð gegn heilbrigðiskerfi svæðisins.

Jafnframt hefur Wall Street Journal greint frá því að ísraelskir hermenn hafi skotið á Palestínumenn sem báru hvíta fána nærri mannúðarstöð GHF (Gaza Humanitarian Foundation) í síðasta mánuði. Upplýsingarnar koma frá ísraelskum varaliða, sem sagði hermenn hafa skotið þegar fólk fór út af fyrirfram ákveðnum gönguleiðum. Þótt hermenn séu sagðir eiga að skjóta í loftið eða í fætur, viðurkenndi hann að „mistök gerast“. Frá því GHF var sett á laggirnar hafa yfir 900 Palestínumenn verið drepnir í tilraunum sínum til að ná í matarpakka.
Að auki hafa að minnsta kosti fimm manns látið lífið og fleiri særst eftir að ísraelskar orrustuþotur réðust á afsaltverksmiðju í Remal-hverfinu í Gaza-borg. Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum voru líkin og þeir særðu flutt undir mikilli skothríð til nærliggjandi sjúkrahúsa. Afsaltsverksmiðjan gerir sjávarvatn drykkjarhæft.
Ástandið á Gaza versnar með degi hverjum, og alþjóðasamfélagið er ítrekað hvatt til að bregðast við með afgerandi hætti. Rauði krossinn hefur enn ekki tjáð sig opinberlega um handtöku læknisins.
Komment