
„Hvergi í heiminum eru fleiri rithöfundar fangelsaðir en í Kína,“ segir Jón Gnarr í færslu á Facebook þar sem hann hvetur forseta Íslands til að beita sér fyrir tjáningarfrelsi í heimsókn sinni til Kína. Hann bendir á að nú sitji yfir 100 skáld í fangelsum víðsvegar um Kína, einungis fyrir að hafa skrifað eða tjáð skoðanir sem stjórnvöldum eru ekki að skapi.
Jón rifjar einnig upp þegar hann var borgarstjóri Reykjavíkur og afhenti fulltrúa kínverskra stjórnvalda bréf þar sem farið var fram á að ljóðskáldið Liu Xiaobo yrði leyst úr haldi. Bréfið var byggt á kröfu Alþjóðasamtaka rithöfunda. Nokkrum mánuðum síðar hlaut Liu Friðarverðlaun Nóbels en lést árið 2017 í haldi kínverskra yfirvalda.
„Sem bókmenntaþjóð höfum við ríka skyldu við tjáningarfrelsið. Reykjavík er Bókmenntaborg UNESCO,“ segir Jón og leggur áherslu á að Íslendingar verði að nýta þann vettvang sem þeir hafa. Hann bætir við að það væri „magnað“ ef Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, myndi vekja máls á stöðu fangelsaðra rithöfunda í Kína í væntanlegri opinberri heimsókn sinni til landsins.
Komment