
Á landsþingi Viðreisnar, sem fer fram um helgina, hefur Jón Gnarr, þingmaður flokksins, lagt fram breytingartillögu um að nafni Viðreisnar verði breytt eða bætt við það. Tillagan felur í sér að bætt verði við orðunum Frjálslyndir demókratar aftan við nafnið.
„Með þessari viðbót skýrum við enn frekar hvað við stöndum fyrir í pólitík og styrkjum tengslin við alþjóðleg samtök sem við erum hluti af eins og Alliance of Liberals and Democrats for Europe Party (ALDE). Og auðvitað líka við Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum,“ skrifar Jón.
Hann segir nafnið Viðreisn ekki sérlega sterkt og vísar til þess að það tengist sögulegum ríkisstjórnum sem fáir hafi áhuga á í dag. „Viðreisn er því frekar hlutlaust nafn. Kannski eins og Hyundai. Það hefur litla tilfinningalega tengingu, sérstaklega hjá ungu fólki,“ segir hann.
Jón bendir jafnframt á að orðið viðreisn lýsi einskiptis gjörningi, ólíkt hugtökum á borð við umbætur. „Ef stóll liggur á gólfinu og ég reisi hann við þá er það viðreisn og stóllinn tilbúinn að gegna hlutverki sínu. Meira verður ekki gert,“ útskýrir hann.
Þá rifjar Jón upp dæmi um nafnabreytingar annarra flokka. Hann telur að Alþýðuflokkurinn hafi gert mistök þegar hann breytti um nafn og merkinu með rósinni, en fagnar því að flokkurinn, Samfylkingin, hafi nú tekið upp heitið Jafnaðarmannaflokkur Íslands og endurvakið rósina.
Að lokum segir Jón að orðið demókrati sé ekki síður íslenskt en önnur erlend hugtök sem fest hafa rætur í málinu. „Mörgum kann að þykja orðið demókrati útlenska. En það eru kapítalismi og sósíalisti líka. Það fallbeygist og hefur fyrir löngu öðlast sess í íslenskri tungu,“ skrifar hann og bendir á að bæði í Bretlandi og Þýskalandi séu slík heiti þýdd á íslensku sem frjálslyndir demókratar og kristilegir demókratar.
Tillagan verður tekin til atkvæðagreiðslu á landsþinginu í dag.
Komment