
Anna Rakel Ólafsdóttir birti skondna færslu í Facebook-hópnum Íslendingar í Hollandi, í fyrradag en þar auglýsti hún kæsta skötu gefins.
Ástæðan fyrir gjafmildi Önnu Rakelar er sú að fyrir mistök fékk hún send heil sex kíló af kæstri skötu til Hollands en hún hafði pantað 600 grömm.
Anna Rakel skrifaði:
„Kæst skata gefins!
Fyrir mistök fékk ég send 6 kíló af skötu (panntaði 600gr) og vil endilega losna við aukakílóin
Vacumpakkað í 5x1kg pakkningum - Frítt gegn því að vera sótt til Haag Í DAG!
Áhugasamir hafið samband í pm.“
Færslan vakti töluverða athygli en hátt í þrjátíu manns hefur skrifað athugasemdir við hana, ýmist til grínast og stinga til dæmis upp á götugrill, eða til að biðja um skötu.
Mannlíf heyrði í Önnu Rakel og spurði hana út í misskilninginn.
„Ég veit eiginlega ekki hvernig misskilningurinn kom til, en fjölskyldan bað um 600gr og ætli það hafi ekki bara bæst við auka núll einhversstaðar á leiðinni og 600 gr varð 6.000gr,“ segir Anna Rakel í samtali við Mannlíf.
Segir hún að skötumagnið dugi fyrir 20 manns en aðeins séu þrír í fjölskyldunni sem borði hana.
„Þetta var nóg skata fyrir 20 manns og bara 3 sem borða þetta í fjölskyldunni. Lyktin var ekki góð en þessu var ágætlega pakkað inn þannig að það fannst ekki fyrr en kassinn var opnaður.“
Önnu Rakel tókst að losna við helming skötunnar með færslunni en aðspurð hvort Hollendingar séu ekkert til í kæsta skötu svaraði hún:
„Nei, Hollendingarnir höfðu ekki mikinn áhuga á þessu.“

Komment