
Björn Birgisson samfélagsrýnir frá Grindavík er ómyrkur í máli í nýjustu Facebook-færslu sinni en þar kallar hann þingmenn stjórnarandstöðunnar hryðjuverkafólk.

Færslur Björns vekja að jafnaði töluverð viðbrögð en þar fer hann oftar en ekki yfir hin ýmsu samfélagsmál, pólitík og annað sem fólk smjattar á dagsdaglega og er þekktur fyrir að tala tæpitungulaust. Í færslu sem hann birti í gær fer hann yfir stöðuna á Alþingi, eins og hann sér hana.
„Staðan er þessi.
Ríkisstjórnin er með bunka af útpældum málum sem munu koma nánast öllum vel á mörgum sviðum þjóðlífsins sem og vanræktum innviðum í þjóðareign.
Það þýðir að ef stjórnarandstaðan reynir að endurtaka fíflagang sinn í veiðigjaldamálinu, þá verða fáir til að blessa skrípaleikinn og atkvæðin munu hrynja af hryðjuverkafólkinu og það sitja eftir með flokka í útrýmingarhættu.“
Segir Björn ennfremur að margir „hryðjuverkamannanna“ muni ekki ná endurkjöri í næstu kosningum.
„Það er líklega til of mikils mælst að hryðjuverkaþingmennirnir hegði sér almennilega á Alþingi og beri hag þjóðarinnar í heild fyrir brjósti.
Af þeim hópi munu ekki margir ná endurkjöri næst þegar þjóðin velur sér þingmenn til að gæta hagsmuna sinna.
Þeir eru sjálfum sér verstir og orðnir að hálfgerðri þjóðarskömm.“
Komment