
Karl Ágúst Úlfsson birti í hádeginu rúmlega 40 ára gamalt frumsamið ljóð á Facebook, sem passar skuggalega við nútímann.
Hinn ástkæri leikari og listamaður, Karl Ágúst Úlfsson birti í hádeginu ljóð sem hann samdi árið 1983 og segir innihaldið vekja hann til umhugsunar, þar sem það passar enn vel við heiminn eins og hann er í dag. Hér fyrir neðan má lesa færslu Karls Ágústar og ljóðið í heild sinni.
„Þetta ljóð er orðið vel ríflega fertugt. Samt er eins og ég hafi ort það í gær, en ekki 1983. Það hefur birst einu sinni á Facebook og hvergi annars staðar. Vekur mig satt að segja til umhugsunar.“
ÁN TITILS
Þið segið að ég sé heigull
en horfiði bara á:
Ég horfist blákalt í augu
við bráðan bana
fólks um allan heim.
Ég kveiki á sjónvarpi með öruggu handtaki
og horfi óhagganlegur á svívirtar konur
brennandi þorp
og deyjandi börn.
Ég hlusta á útvarp
og skipti ekki svip
þótt ég heyri af ógnum úr austri og vestri.
Og er ég þá heigull?
Ég fletti blöðum
og bregður ekki hót
þótt ég lesi um yfirvofandi ógnir
í öllum heimsins hornum,
því ógnin er öllum þekkt
og einnig mér.
En ég, kæru vinir, er enginn heigull.
Ó, nei.
Ég er nútímahetjan -
nútíma-fornaldarhetjan
sem bregður hvorki við sár né bana
annarra.
Glaður og reifur
ber ég höfuðið hátt
er aðrir síns bana bíða.
Og svo skal ég velja mér góða
vídeómynd.
Komment