Leikarinn og rithöfundurinn Karl Ágúst Úlfsson birti á jóladag einlæga og persónulega færslu þar sem hann minnist föður síns, Úlfs Þórs Ragnarssonar, sem lést fyrir fjórum árum.
Í færslunni segir Karl Ágúst að jólin færi sér jafnt gleði sem sorg. Hann birtir gamla ljósmynd af föður sínum sem tekin var í Sómalíu, þar sem Úlfur starfaði sem verkstæðisformaður í Hargeysa og sá um viðhald bílaflota Rauða krossins á svæðinu.
Karl Ágúst segir föður sinn unglegan á myndinni, þótt hann hafi þá þegar verið orðinn afi. Hann giskar á að á myndinni hafi Úlfur annað hvort verið að rita ástarbréf til móður hans eða skrifa í dagbókina sem hann hélt af mikilli nákvæmni á meðan dvöl hans í Afríku stóð.
Úlfur hafði orðið 82 ára á aðfangadag, daginn áður en hann lést, og segir Karl Ágúst að jóladagur hafi síðan þá alltaf borið með sér „glaðan sorgarkökk í hálsi og döpur gleðitár í augum.“
Hann lýsir föðurnum sem hamingjuríkum og skapgóðum manni:
„Í mínum augum var hann óhemju ríkur, en samt ekki fjáður, heldur hamingjuríkur, skilningsríkur, hugmyndaríkur og kærleiksríkur,“ skrifar hann og bætir við að hann sakni hans og þakki fyrir að hafa alltaf getað leitað til hans.
„Jólin færa okkur oft bæði gleði og sorg.
Þetta er hann pabbi minn, Úlfur Þór Ragnarsson. Myndin var tekin af honum í Sómalíu þegar hann var verkstæðisformaður í Hargeysa og sá um viðhald á bílaflota Rauða krossins á því svæði. Þarna er hann líklega að skrifa mömmu ástarbréf - eitt af þeim fjölmörgu sem hún geymdi í náttborðsskúffunni sinni fram á hinsta dag. Nema hann hafi verið að skrifa þá nákvæmu og stórmerkilegu dagbók sem hann hélt allan tímann sem hann dvaldist í Afríku. Hann lítur út eins og unglingur þar sem hann situr í skýlinu sem hann gisti í á þessum tíma - samt var hann þegar orðinn afi.
Í dag eru fjögur ár síðan hann kvaddi það viðburðaríka líf sem hanni átti. Daginn áður, á aðfangadag, hafði hann orðið áttatíu og tveggja ára.
Nú bæði klökkna ég og gleðst á jóladag allar götur síðan. Sakna hans sannarlega og allra þeirra góðu og glaðværu stunda sem við áttum saman. Þakka líka innilega fyrir að hafa átt hann að og mátt leita til hans endalaust. Í mínum augum var hann óhemju ríkur, en samt ekki fjáður, heldur hamingjuríkur, skilningsríkur, hugmyndaríkur og kærleiksríkur.
Já, ég hugsa til þín í dag, elsku pabbi minn, með glaðan sorgarkökk í hálsi og döpur gleðitár í augum.“


Komment