
Rannsóknir benda til þess að allt að helmingur þess hunangs sem flutt er inn til Evrópu sé falsað. Svik í hunangsframleiðslu eru sögð valda verðfalli, veikja stöðu býflugnaræktunar og grafa undan verndun býflugna á heimsvísu. Þetta kemur fram í frétt Bændablaðsins.
Stærstur hluti svikna hunangsins kemur frá Kína, þar sem bæði er selt innanlands og flutt út í gríðarlegu magni. Þriðjungur alls útflutts hunangs í heiminum er kínverskur, en einnig er bent á Tyrkland og Víetnam sem uppsprettur svika. Talið er að þetta hunang lendi víða í stórmörkuðum sem ódýrara „blönduhunang“.
Óhreinindi og eiturefni
Franskur rannsóknarhópur sem skoðaði kínverskt hunang í matvöruverslunum fann í mörgum tilfellum sykur, maíssíróp, rófumelassa og jafnvel dýraleifar, auk efna og eiturefna. Vatnsmagn var hátt og í sumum tilvikum hafði hunangið verið tekið of snemma, áður en það náði fullum þroska.
Svipuð niðurstaða fékkst í rannsóknum í Ástralíu, Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, á Spáni og á Indlandi, sem öll eru stór innflutningslönd kínversks hunangs.
Frakkar í fararbroddi
Frakkland á sér sterka hefð í hunangsframleiðslu, en neytendur þar hafa lengi kvartað yfir röngum upprunamerkingum. Svik hafa meðal annars falist í því að kínverskt eða spænskt hunang er selt sem franskt, eða að ódýr blandað hunang er merkt sem akasíuhunang.
Le Monde greindi frá því að samkvæmt úttekt framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 2023 reyndist allt að helmingur innflutts hunangs til Evrópu falsað. Í um 74% tilfella kínversks hunangs og nær öllum tyrkneskum sýnum komu í ljós vörusvik.
Vaxandi vandamál
Samkvæmt nýjustu tölum er næstum helmingur hunangs sem fluttur er inn til Evrópu utan álfunnar blandaður með sykursírópi úr hrísgrjónum, hveiti eða sykurrófum. Í sýnatöku á 320 lotum reyndust 46% falsaðar. Árið 2015 var hlutfallið aðeins 14%, sem sýnir að vandinn hefur stóraukist.
Evrópa er næststærsti innflytjandi hunangs í heiminum, með um 175 þúsund tonn á ári. Á Íslandi var flutt inn tæplega hálft tonn á árunum 2023 til júní 2025, þar af rúm 69 tonn frá Kína, eða um 16%.
Svikaraðferðir sífellt útsmognari
Honey Authenticity Network (HAN) segir að svikarar hafi þróað tæknina hraðar en hefðbundnar greiningaraðferðir ráði við. Algengt sé að bæta maíssírópi eða sykurreyr í hunang, en nýjar aðferðir gera einnig mögulegt að fela síróp úr hrísgrjónum og hveiti.
Frjókorn, ensím og amínósýrur sem ættu að vera í hunangi eru jafnvel bætt í tilbúnar blöndur til að villa um fyrir prófunum. Þar sem tonnið af hreinu hunangi kostar um 3.000 Bandaríkjadali en síróp sex sinnum minna, er svikin afar arðbær viðskipti.
Aðgerðir Evrópusambandsins
Þrátt fyrir aukið eftirlit hefur ekki tekist að stöðva innflutning falsaðs hunangs. Nýjar reglur tóku gildi í nóvember 2024 sem kveða á um strangara skráningar- og eftirlitsferli fyrir innflutning frá ríkjum utan Evrópusambandsins.
Á Íslandi hefur Neytendasamtökunum ekki borist formlegar kvartanir um svikið hunang, en samt er ljóst að vandamálið er alþjóðlegt og aðgengilegt ódýrt hunang getur sett álag á markaðinn.
Komment