
Hin níræða Kolbrún Björnsdóttir er sennilega elsti stuðningsmaður Íslands á EM kvenna í knattspyrnu, sem hefst í dag, en hún ákvað að skella sér til Sviss til að styðja við bakið á stelpunum okkar.
Með henni í för eru Sigrún Arnardóttir, dóttir hennar, og barnabarnið Bryndís Arna Níelsdóttir en hún spilar með sænska knattspyrnuliðinu Växjö DFF og hefði sennilega verið í íslenska landsliðinu á EM ef ekki væri fyrir meiðsli. Samkvæmt Sigrúnu var ferðin plönuð þegar Bryndís skoraði mark gegn Serbíu í fyrra.
„Plan B var að vera góðir stuðningsmenn og Bryndís sagði alltaf að „þó ég verði ekki hóp þá ætla ég samt að fara til Sviss og vera með,“ og hún er búin að fara í nokkur viðtöl á FanZone og svoleiðis,“ sagði Sigrún við Mannlíf um ferðina.
Samkvæmt Sigrúnu var Bryndís mjög svekkt fyrst þegar hún komst að því að kæmist ekki á EM vegna meiðsla en hún líti björtum augum fram á veginn. Komið hafi í ljós að meiðslin hafi ekki verið jafn alvarleg og óttast var fyrst. Sennilega muni hún geta hafið æfingar með liði sínu í lok júlí.
Sigrún segir að þær ætli að sjá alla leiki Íslands í riðlakeppninni og þær eru bjartsýnar á gott gengi liðsins.
„Ég er búin að spá 3-1 fyrir Íslandi,“ sagði Sigrún um leik Íslands gegn Finnlandi. „Við förum jákvæðar inn í þetta mót og spáum þeim áfram. Við höldum að þær stígi upp og sýni hvað í þeim býr.“
Fyrsti leikur Íslands er í dag klukkan 16:00 og mætir Ísland Finnlandi í þeim leik.

Komment