
Drónaárás var gerð á skip hjálparsamtaka í nótt, stuttu eftir að það lagði úr höfn frá Möltu, á leið sinni með hjálpargögn á Gaza. Árásin átti sér stað á alþjóðlegu hafsvæði en samtökin, Frelsisflotinn saka Ísraela um að bera ábyrgð á árásinni.

Samkvæmt frétt RÚV kviknuðu eldar við árásina, og missti skipið orku. Þá komu göt á byrðinginn en dráttarbátur og eftirlitsbátur voru sendir til hjálpar og er nú búið að ná tökum á eldinum. Fram kemur í sömu frétt að maltnesk yfirvöld segi að 12 áhafnarmeðlimir séu um borð og fjórir aðgerðarsinnar en samtökin segja 30 vera um borð. Meðal þeirra sem átti að fara með skipinu var sænski aðgerðarsinninn Greta Thunberg en af einhverjum sökum fór hún ekki um borð. Tveir mánuðir eru liðnir frá því að stjórnvöld í Ísrael stoppaði allar sendingar hjálpargagna inn í Gaza.
Fara fram á rannsókn
Að mati Euro-Med Human Rights Monitor ætti að fara fram rannsókn á drónaárásunum á hjálparflotann sem var á leið til Gaza frá Möltu. Þetta kemur fram í frétt Al Jazeera.
„Viljandi árás á borgaralegt hjálparskip á alþjóðlegum hafsvæðum eru gróf brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna, hafréttarsáttmálanum og Rómarsáttmálanum, sem bannar árásir á mannúðleg skotmörk,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.
Þau bæta við: „Þessi árás fellur innan endurtekins og skjalfests mynsturs þar sem valdbeiting hefur verið notuð til að koma í veg fyrir að skip nái til Gaza, jafnvel áður en þau nálgast strendur svæðisins.“
Samtökin krefjast „sjálfstæðrar og gagnsærrar rannsóknar undir lögsögu Möltu, með þátttöku Sameinuðu þjóðanna“.
Þau krefjast einnig „trygginga fyrir öruggri siglingaleið fyrir mannúðarhjálp til Gaza“.
„Allt aðgerðarleysi núna mun einungis hvetja til frekari árása á mannúðarsendirferðir og dýpka hörmungarnar sem eiga sér stað í Gaza,“ segir í yfirlýsingunni.
Talsmaður Gaza Freedom Flotilla segir hópinn telja að Ísrael eða bandamenn þess beri ábyrgð á árásinni, en bætir við að þau hafi ekki enn sannanir fyrir því.
Ísraelsk yfirvöld segjast ætla að rannsaka árásina.
Komment