
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segist styðja fyllilega kæru Julians Assange til sænskra yfirvalda þar sem krafist er að greiðslur upp á 150 milljónir íslenskra króna til nýs friðarverðlaunahafa Nóbels, Maríu Corrinu Machado, verði frystar á meðan meint lögbrot í tengslum við verðlaunaafhendinguna eru rannsökuð.
Í Facebook-færslu sinni segir Kristinn að þótt norska Nóbelsnefndin ákveði hver hljóti friðarverðlaunin, þá beri Svíar ábyrgð á umsýslu fjármuna sem tengjast arfi Alfreds Nóbels. Hann telur að greiðsla til Machado fari þvert gegn vilja stofnandans.
„Veiting fjármuna til Machado er gróflega á skjön við markmið friðarverðlaunanna sem hann skráði skýrt í erfðaskrá,“ skrifar Kristinn.
Hann bendir jafnframt á að mögulega séu brotin lög sem banna fjárstuðning við óhæfuverk og stríðsglæpi. Að hans mati liggi það fyrir að Machado hafi hvatt til hernaðaraðgerða gegn Venesúela.
„Það kemur einnig til álita að lög séu brotin sem banna fjárstuðning við óhæfuverk og stríðsglæpi þegar ljóst er að Machado hefur gerst klappstýra yfirvofandi loftárása og ef til vill innrásar Trumpstjórnarinnar í Venesúela,“ segir Kristinn og bætir við að hún hafi „þegar klappað upp mannskæðar árásir á fiskibáta undan ströndum landsins.“
Kristinn fer hörðum orðum um ákvörðun norsku Nóbelsnefndarinnar og segir hana bæði óskiljanlega og hættulega.
„Það er óbærilega vitskert að veita friðarverðlaun Nóbels til Machado og vel má rökstyðja að með því atferli hafi norska Nóbelsnefndin hraðað atburðaþróun og skapað réttlætingarrök fyrir Trump að ráðast á landið,“ skrifar hann.
Í færslunni varar hann einnig við yfirvofandi hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna gegn Venesúela og tengir þær hagsmunum af olíuauðlindum landsins.
„Miðað við sturlaðar yfirlýsingar Bandaríkjaforseta fyrir rúmum sólarhring gæti verið stutt í allsherjarárás á Venesúela – en þar eru mestu olíubirgðir heimsins (ef menn velkjast í vafa um raunverulega ástæðu ofstækisins),“ segir Kristinn.
Að lokum dregur hann upp hliðstæðu við innrásina í Írak árið 2003 og varar við einföldum og villandi samanburði.
„Þeir sem gagnrýndu ólögmæta innrás í Írak 2003 voru gjarnan spurðir heimskulega og með þjósti hvort þeir styddu harðstjórann Saddam Hussein. Nú þegar sú saga endurtekur sig vona ég að fólk falli ekki í þá gryfju heimskunnar að nefna Maduro til sögunnar í þessu samhengi.“
Kristinn greinir frá því að kæra Julians Assange til sænskra yfirvalda sé að finna í fyrstu athugasemd við færslu hans.

Komment