
Efnt verður í dag til fundar leiðtoga Norrænu ríkjanna fimm og Eystrasaltsríkjanna þriggja með Volodymyr Zelenskyy, forseta Úkraínu, í Kaupmannahöfn í boði forsætisráðherra Danmerkur en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnvöldum
Þar að segir að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sæki fundinn, sem boðaður var með skömmum fyrirvara, og er haldinn með það að markmiði að undirstrika einarðan stuðning NB8-ríkjanna við varnarbaráttu Úkraínumanna gegn ólöglegri innrás Rússa.
„Munu leiðtogarnir m.a. ræða stöðu mála í Úkraínu og það víðfeðma samráð sem átt hefur sér stað að undanförnu meðal ríkjahóps til stuðnings friði í Úkraínu (e. Coalition of the Willing). Er það yfirlýstur vilji NB8-ríkjanna að viðhalda staðföstum stuðningi við Úkraínu. Búist er við að NB8-ríkin og Úkraína munu gefa út sameiginlega yfirlýsingu eftir fundinn sem fram fer í Marienborg, embættisbústað forsætisráðherra Danmerkur.“
Komment