
Goðsögnin Laddi hefur gefið út nýtt lag í samstarfi við Hljómsveit mannanna, sem skipuð er Hvanndalsbræðrum frá Akureyri ásamt fleiri tónlistarmönnum. „Lagið heitir 19 gráður og er óður til sumarsins og þess sem vænta má á næstu vikum,“ segir í tilkynningu.
„Laddi og hljómsveit mannanna hafa ferðast um landið undanfarin tvö ár og leikið á tónleikum bestu lög Ladda ásamt því að gefa út tvö lög, en 19 gráður er það þriðja sem hópurinn gerir saman. Áður hafa komið út lagið Tíminn og endurgerð á laginu Mamma.“
Um þessar mundir stendur Laddi á sviði flest allar helgar í Borgarleikhúsinu þar sem hann leikur í sýningunni Þetta er Laddi. Hljómsveit mannanna „er í startholunum og bíður þess að túra með Ladda á ný þegar glufur myndast. Það er amk ljóst að Laddi er hvergi nærri hættur í tónlistinni en lagabálkur hans telur fleiri hundruð laga og mörg hver gríðarlega vinsæl.“
Á meðfylgjandi mynd má sjá Ladda ásamt Hljómsveit mannanna. Frá vinstri eru: Magni Ásgeirsson, gítarleikari og söngvari, Arnar Tryggvason, hljómborðsleikari og söngvari, Valur Freyr Halldórsson, trommari, Þórhallur Sigurðsson – Laddi sjálfur, Pétur Steinar Hallgrímsson, gítarleikari og söngvari, og Summi Hvanndal, bassaleikari og söngvari. Tveir meðlimir voru fjarverandi við töku myndarinnar: Ármann Einarsson, sem leikur á saxófón, og Valgarður Óli Ómarsson slagverksleikari.
Komment