
Stuttu eftir áramótin tók Inga Sæland við sem mennta- og barnamálaráðherra og er óhætt að segja að hún hafi byrjað með látum. Inga mætti í Kastljós í gær til að ræða menntamálin en þau mál hafa verið í sviðsljósinu á undanförnum árum og hafa margir kennarar áhyggjur af Ingu í embættinu.
Einn af þeim er Ingólfur Gíslason, lektor hjá Háskóla Íslands, og hann vandar Ingu ekki kveðjurnar.
„Leitt þegar ráðherrar eru fremstir í flokki upplýsingaóreiðu og falsfrétta,“ skrifar Ingólfur um Ingu á samfélagsmiðlum. „Ég er að tala um Ingu Sæland. Það er með ólíkindum hve margar rangar fullyrðingar hún fór með í Kastljósi í gær. Bara hrein þvæla. Frekar erfitt að byggja menntastefnu á vanþekkingu, ranghugmyndum og óskhyggju. Líka frekar fráhrindandi að ráðherra hafi ekki þá auðmýkt og skilning að hún verður ekki sérfræðingur í málum (hér: menntamálum) á einum degi, viku, mánuði eða nokkrum árum þess vegna. Og því samhliða að halda, eða gefa í skyn, að kennarar og aðrir sem vinna að menntamálum og rannsóknum á þeim séu annaðhvort hálfvitar eða beinlínis að vinna gegn markmiðum náms (eins og læsi),“ hélt lektorinn áfram.
„Mér fannst reyndar kostulegast þegar hún svaraði til um ástæður þess að gengi Finnlands færi hrakandi: það er út af öðrum samfélagslegum þáttum, ekki menntakerfinu. En slakt gengi á Íslandi skýrist ekki af samfélagslegum þáttum heldur meintra kennsluaðferða,“ skrifaði Ingólfur einnig.

Komment